Innlent

Gagnrýna hugtakamisnotkun fjármálaráðherra

Þór Saari og félagar hans í Hreyfingunni gagnrýna framlagt frumvarp fjármálaráðherra.
Þór Saari og félagar hans í Hreyfingunni gagnrýna framlagt frumvarp fjármálaráðherra.

Þingmenn Hreyfingarinnar gagnrýna þá hugtakamisnotkun sem felst í framlögðu frumvarpi fjármálaráðherra um umhverfis- og auðlindaskatta. Með frumvarpinu er lagt til að innheimtur verið skattur á sölu á raforku og heitu vatni auk skatts á tilgreinda flokka á fljótandi jarðefnaeldsneyti. Tilgangurinn er að afla aukinna tekna fyrir ríkissjóð sem nemur 4,7 milljörðum kr.

Í tilkynningu frá Hreyfingunni segir að þingmenn hennar séu fylgjandi kolefnis-, umhverfissköttum og auðlindagjöldum en að þeir geri alvarlegar athugasemdir við þá þversögn að nefna skattheimtuna „auðlindaskatta" eins og lagt er til í frumvarpinu. „Í frumvarpinu hefur verið lagt til að innheimta skattinn af notendum í stað skattlagningar á auðlindinni sjálfri eins og venja er þegar talað erum auðlindaskatta," segir í tilkynningunni.

Bent er á að Hreyfingin hafi talað fyrir upptöku auðlindaskatts í sjávarútveginum. „Ef ríkisstjórnin ætlaði að beita sömu aðferð á innheimtu auðlindaskatts á fiskveiðiauðlindinni og gert er í þessu frumvarpi, þá yrðu fiskflök og fiskbollur í borðum kjörbúða skattlagðar en ekki aflaheimildirnar. Engum hefur dottið slík aðferð í hug."

Þá segir að við meðferð málsins í nefndinni hafi komið fram að ýmsar leiðir hefðu verið skoðaðar af framkvæmdavaldinu til að innheimta auðlindaskatta á raforku og heitu vatni. Niðurstaðan varð sú að leggja til þá leið að skattleggja notkun almennings á auðlindinni. „Þingmenn Hreyfingarinnar vara við því að leið ríkisstjórnarinnar að þessu sinni verði í framtíðinni túlkuð sem fordæmi sem hægt yrði að vísa til og gæti þar með haft áhrif á alla umgjörð lagasetningar um auðlindagjöld," segir að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×