Innlent

Svelgur í Sigöldu og öfugur foss

Risastór svelgur og öfugur foss sjást nú við Sigöldu en þar stendur yfir fyrsta meiriháttar viðhald á virkjuninni frá því hún var gangsett fyrir þrjátíu og tveimur árum. Sigölduvirkjun hefur reynst hin mesta gullnáma á starfstíma sínum, hún útrýmdi olíukyndingunni á sínum tíma og hefur síðan skilað um áttatíu milljörðum króna í tekjur fyrir þjóðarbúið.

Er vann ég við Sigöldu, meyjarnar mig völdu, var sungið í þekktu dægurlagi. Þá ríkti rómantískur blær yfir Sigölduframkvæmdunum, sveitapiltar sneru moldríkir heim, umvafðir kvenfólki, ef marka má texta Þorsteins Eggertssonar sem Engilbert Jenssen söng árið 1975.

Og nú er aftur byrjað að vinna við Sigöldu. Virkjunin hefur verið stöðvuð, og miðlunarlónið og hinn risastóri inntaksskurður virkjunarinnar tæmd til að menn komist að lokubúnaði til að sandblása og mála. Úr skurðinum er verið fjarlægja grjót og annar jarðveg, sem hrunið hefur niður, utan á Sigöldustíflu er verið að styrkja malbikskápuna og inni í stöðvarhúsinu er verið að yfirfara aflvélarnar þrjár. Mannvirkin eftir allan þennan tíma fá toppeinkunn og hafa staðist vel, að sögn Daða Viðars Loftssonar, vinnslustjóra Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu.

Vatni Tungnár er hleypt úr uppistöðulóninu um sérstaka botnrás undir stífluna og myndast við það ansi magnaður svelgur þegar vatnið sogast undir. Ekki er síðra fyrirbærið sem myndast neðan stíflunnar þegar Tungnaá þeytist af öllu sínu afli út úr botnrásinni tólf til fimmtán metra upp í loftið, og myndar einskonar öfugan foss til að draga ír krafti vatnsins áður en það skellur á gljúfrinu fyrir neðan.

Sigalda var fyrsta hálendisvirkjun Íslendinga. Hún var byggð til að knýja Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga og til að skipta olíukyndingu húsa yfir í rafhitun. Hún hefur því bæði skapað gjaldeyri og sparað gjaldeyri á starftíma sínum og hefur skilað tvöfalt til þrefalt meiri tekjum en sem nemur stofnkostnaði. Og þótt þarna vinnir engir starfsmenn að staðaldri mun Sigalda halda áfram að skila tveim til þrem milljörðum króna árlega næstu áratugi í þjóðarbúið.

Karlarnir fimmtíu sem vinna þarna tímbundið í sumar kannast hins vegar ekkert við að meyjarnar velji þá sérstaklega, - það eru miklu frekar flugurnar sem sækja á þá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×