Innlent

Þykir hafa tryggt aðkomu kvenna

Svandís Svavars­dóttir, tók í gær við viðurkenningu fyrir Íslands hönd frá regnhlífarsamtökum kvenna, Women and Gender Constituency.Verðlaunin voru veitt Íslandi og Gana fyrir að tryggja aðkomu kvenna að úrbótum í loftslagsmálum. Svandís hélt í gær erindi á málstofu um konur sem afl til breytinga.

Svandís segir að hugsunin sem felist í þeirri yfirskrift sé mikilvæg.

„Kynjajafnrétti er alla jafna mikilvægt en þegar við stöndum frammi fyrir svo miklum breytingum eins og nú verða að eiga sér stað, til að vinna bug á loftslagsbreytingum og þeirri vá sem þær skapa, verða konur að eiga jafnan aðgang að því að koma að úrlausnum, hvort sem lýtur að stjórnmálum, fjármagni eða lausn vandamálanna," segir Svandís.

Hún segir málstofuna hafa gengið vel og mikil þátttaka hafi verið í umræðum, ekki síst frá þróunarlöndunum. „Þetta eflir yfirsýn yfir það sem er að gerast í heiminum í þágu kynjasjónarmiða varðandi loftslagsmál."

Svandís segir íslensku sendinefndina hafa unnið þarft verk í því að koma orðunum Gender Equality, kynjajafnrétti, í fyrsta skipti inn í samning um loftslagsmál, en það hafi tekist nú.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×