Viðskipti innlent

Hagnaður Eyris Invest nam 2 milljörðum fyrri helming ársins

Hagnaður að fjárhæð 11,5 milljónir evra, eða um 2 milljarðar kr., varð af rekstri Eyris Invest á fyrri hluta ársins 2009. Eigið fé nemur 195 milljónum evra í lok tímabilsins.

Í tilkynningu segir að eiginfjárhlutfall er 44%. Kjölfestueignirnar Marel, Össur og Stork skila öll sterku sjóðsstreymi á fyrstu 6 mánuðum ársins og horfur í rekstri félaganna eru góðar

Meginhluti eigna Eyris Invest eru eignarhlutir í þremur leiðandi iðnfyrirtækjum: Marel, Össuri og Stork. Að auki fjárfestir Eyrir Invest í ýmsum sprotafyrirtækjum og styður þau til vaxtar. Stærsta fjárfesting félagsins í sprotafyrirtæki er leiðandi hlutur í Calidris sem þróar og markaðssetur hugbúnað til tekjustýringar hjá flugfélögum víða um heim.

Eyrir Invest hefur skref fyrir skref, frá miðju ári 2006, farið út úr almennum fjárfestingum á verðbréfamarkaði og hefur engar almennar fjárfestingar í veltubók í dag.

„Við erum sátt við að skila hagnaði nú. Afkoma okkar endurspeglar fyrst og fremst afkomu félaga okkar að frádregnum fjármagnskostnaði. Marel, Össur og Stork hafa sýnt mikinn styrk í krefjandi efnahagsumhverfi, með auknu kostnaðaraðhaldi hefur þeim tekist að skila hagnaði og viðhalda sterku sjóðsstreymi ," segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Eyris Invest.

„Við erum þakklát því trausti sem lánveitendur hafa sýnt okkur. Í rekstri Eyris, sem og í aðkomu okkar að rekstri lykileigna, höfum við ávallt lagt ríka áherslu á skýra stefnu, gegnsæjan rekstur og ábyrga fjármögnun. Marel, Össur og Stork eru öll vel fjármögnuð til lengri tíma, með firnasterka samkeppnisstöðu og eru nú í lykilstöðu til að skapa hluthafaverðmæti."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×