Viðskipti innlent

Fyrsta létting á gjaldeyrishöftum stendur þrátt fyrir AGS töf

Fyrirhuguð létting á gjaldeyrishöftunum þann 1. nóvember mun standast, það er fyrsti áfanginn sem er opnun á innstreymi fjármagns frá erlendum aðilum á markaðinn hérlendis. Þetta verður gert þótt áframhaldandi tafir á afgreiðslu Alþjóðasjóðsins (AGS) blasi þá við.

Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra gerði ríkisstjórninni grein fyrir málinu á fundi stjórnarinnar í morgun. Þar ræddi Gylfi um peningastefnuna og afnám gjaldeyrishafta í tengslum við endurskoðun stöðugleikasáttmálans.

„Það var gefin út yfirlýsing í sumar um að afnám gjaldeyrishaftanna hæfist um næstu mánaðarmót og það stenst hvað fyrsta áfangann varðar," segir Gylfi. „Hinsvegar er síðan óljóst með framhaldið meðan að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki afgreitt endurskoðun sína."

Gylfi segir að vonir hafi staðið til að fljótlega eftir 1. nóvember hefði verið hægt að halda áfram að aflétta höftunum og þá hvað varðar útstreymi á gjaldeyri úr landinu. Jafnvel að einhverjir áfangar í þá veru hefðu komið fyrir áramótin. En óvissan um AGS gerir þau áform ómöguleg.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×