Viðskipti innlent

Hagnaður Reykjanesbæjar orðinn yfir 8 milljarðar í ár

Samkvæmt í 10 mánaða árshlutauppgjöri endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte á fjárhagsstöðu bæjarsjóðs Reykjanesbæjar 2009 sem lagt var fram í bæjarráði í gær kemur fram rúmlega 8 milljarða kr. hagnaður.

Í tilkynningu segir að miðað við uppgjör Deloitte, sem gildir tímabilið 1.janúar til 31. október, hækkar eigið fé bæjarsjóðs Reykjanesbæjar úr 2,4 milljörðum kr. árið 2008 í 11,0 milljarða kr. Eiginfjárhlutfall þessa tímabils fer úr 18,44% árið 2008 í 43,09%.

Þessi staða í rekstri og efnahag Reykjanesbæjar er vegna viðskipta með hluti í HS hf. en bærinn hefur selt 34% eignarhlut sinn í HS orku hf. Reykjanesbær hefur keypt meirihluta í HS veitum og á nú þar 66,7%, Að auki keypti Reykjanesbær land og auðlindaréttindi undir virkjunum á Reykjanesi.

Sveitarfélög sem áttu hluti í HS, seldu stærstu hluti sína 2008 og þannig færðist söluhagnaður þeirra í ársreikning 2008. Í tilviki Reykjanesbæjar tók hann á sig yfir 4 milljarða kr. reiknað tap af HS hf. árið 2008 en fær nú söluhagnað á árinu 2009.

Að teknu tilliti til reiknaðra liða er gert ráð fyrir um 7 milljarða hagnaði í árslok 2009, að eignir bæjarsjóðs nemi um 23 milljörðum kr. og að Reykjanesbær haldi um 40% eiginfjárhlutfalli.



„Vandi okkar hefur verið lágar skatttekjur sem eiga að standa undir rekstri. Það hefur vantað um 900 milljónir kr. í skatttekjur árlega til að við náum meðalskatttekjum sveitarfélaga á Íslandi. Skatttekjur koma af störfum. Með nýjum atvinnutækifærum á næsta ári er loks að rofa til í atvinnutekjum og því er staða okkar að verða mjög sterk til framtíðar,"segir Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×