Viðskipti innlent

Dómur um útburð Fosshótela úr Barónstíg 2-4

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað um að Fosshótel verði borin út úr húseigninni Barónstígur 2-5 vegna vanefnda á kaupsamningi. Fosshótel keyptu húsið af Neskjörum fyrir ári en voru áður með húsnæðið á leigu í nokkur ár. Kaupverðið var 900 milljónir kr.

Samkvæmt dóminum gátu Fosshótel hafi ekki efnt kaupsamninginn, þar sem fyrirtækið fékk ekki samþykki Nýja Landsbankans, NBI, fyrir yfirtöku lána Neskjara, sem hvíla á húsinu. Fosshótel gat heldur ekki greitt lánin upp og því tilkynntu Neskjör í mars s.l. að kaupunum væri rift.

Yfirlýsing hefur borist frá Fosshótelum vegna málsins. Hún hljóðar svo:

„Því er ranglega haldið fram að Fosshótel ehf. geti ekki fjármagnað kaupin á þeirri fasteign sem málið varðar. Hið rétta er að Landsbankinn (NBI) samþykkir ekki yfirtöku lána á meðan Neskjör ehf. bannar umferð um lóðina Skúlagötu 36, en ekki er hægt að komast að aðalinngangi og móttöku hótelsins nema um lóðina.

Landsbankinn (NBI) gerir kröfu um að rekstur hótelsins sé tryggður með aðgengi að aðalinngangi hótelsins, þar sem rekstur hótelsins stendur undir fjármögnun á áhvílandi lánum við bankann. Úrskurður héraðsdóms verður kærður til Hæstaréttar. Þangað til niðurstaða Hæstaréttar liggur fyrir, verða engar breytingar á daglegum rekstri hótelsins. Viðskiptavinir Fosshótels Baróns munu áfram geta gengið að góðri þjónustu hótelsins."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×