Viðskipti innlent

Áætlun um afnám gjaldeyrishafta kynnt á morgun

Á morgun, miðvikudaginn 5. ágúst mun Seðlabankinn kynna einstaka áfanga áætlunar sem ríkisstjórnin hefur nú samþykkt um afnám gjaldeyrishafta. Seðlabankinn samdi áætlunina í samráði við viðskiptaráðuneytið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Áætluninni er skipt í áfanga og að uppfylltum skilyrðum verður byrjað á að aflétta takmörkunum á fjármagnshreyfingum sem ekki eru líklegar til að valda óstöðugleika, en öðrum höftum ekki fyrr en þeim áfanga hefur verið lokið með góðum árangri líkt og segir í tilkynningu Seðlabankans sem birt var á föstudaginn í síðustu viku.



Gæti valdið tímabundinni veikingu krónunnar


Ljóst hefur verið um nokkurt skeið að stefnan væri að afnema gjaldeyrishöftin á tíma efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda. Hinsvegar hefur undanfarið nokkuð borið á efasemdum um að afnám yrði að veruleika og að höftum yrði jafnvel haldið næstu árin og fram að mögulegri evruupptöku. Þetta kemur fram í morgunkorni Íslandsbanka.

Þó svo að skýr stefna í þessum efnum sé af hinu góða gæti hún átt eftir að valda frekari veikingu krónunnar um tíma, enda líklega enn frekari hvati fyrir eigendur gjaldeyris að bíða með sölu hans uns krónan hefur tekið út veikingu eftir vænta fleytingu.

Þegar hefur verið greint frá fyrsta áfanga ofangreindrar áætlunar um afnám gjaldeyrishafta. Gert er ráð fyrir að hafist verði handa 1. nóvember næstkomandi með afnámi hafta á nýjar fjárfestingar. Um er að ræða fremur varfærið skref í afnámi hafta og ólíklegt að það muni hafa nein umtalsverð áhrif á gengi krónunnar þegar til þess kemur.

Óvissa um tímasetningar

Eitt af skilyrðunum fyrir því að byrjað verði á afnámi gjaldeyrishaftanna 1. nóvember næstkomandi er að þá verði búið að afla nægs gjaldeyrisforða til þess að mæta tímabundnum óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði, ef til hans kemur.

Enn er talsverð óvissa í þessum málum en í lok síðustu viku var tilkynnt að töf verði á því að framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins taki fyrir endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnavalda.

Þar með tefst að greiða út annan hluta lánsins frá sjóðnum samtals 155 milljónir dollara. Að sama skapi hafa verið tafir á lánum frá hinum norðurlöndunum. Til grundvallar liggur að Icesave-samkomulagið hefur ekki enn verið samþykkt á Alþingi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×