Innlent

Ræddu fundarstjórn forseta í 20 mínútur

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Mynd/GVA
Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks ræddu um fundarstjórn forseta Alþingis í meira en 20 mínútur á þingfundi á tólfta tímanum í kvöld. Þingmennirnir gerðu alvarlegar athugasemdir við fjarveru ráðherra og stjórnarliða og á þá einkum Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra.

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisábyrgð vegna Icesave reikninga Landsbankans kom til annarrar umræðu á Alþingi í dag og ræddu þingmenn um frumvarpið fram á kvöld.

„Þessi fjarvera ráðherra, forsætisráðherra fyrst og fremst, er hrópandi. Mér finnst hún styðja þær fullyrðingar okkar í stjórnarandstöðunni að afgreiðsla málsins væri bara formsatriði. Að við ættum bara að stimpla þetta," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Þá vakti hún athygli á því Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, væri ekki enn kominn á mælendaskrá. „Hann ætlaði að vera viðstaddur umræðuna og móta sér afstöðu í samræmi við það hvernig þingið væri búið að vinna málið. Ég vil sérstaklega vekja athygli á því."

Eftir að Árni Þór Sigurðsson, varaforseti Alþingis, hafði gert stutt hlé sleit hann þingfundinum. Á morgun og mánudag eru svokallaðir kjördæmadagar og því er ljóst að umræðu um Icesave verður ekki framhaldið fyrr en í fyrsta lagi á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×