Viðskipti innlent

Kaupþing eignast hlut í Lagernum

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Lagerinn hefur undanfarið átt í samningaviðræðum við Nýja Kaupþing banka um endurskipulagningu á rekstri með það fyrir augum að létta á íþyngjandi skuldabyrði félagsins. Bankinn hefur nú náð samkomulagi við Jákup Jacobsen, stærsta hluthafa Lagersins, um breytingu á skuldum í hlutafé.

Samkvæmt lánabók Kaupþings frá 25. september 2008 sem var birt á vefnum Wikileaks síðsumars námu skuldir Lagersins og tengdra félaga við Kaupþing 318 milljónum evra, eða 58 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.

Jákup Jacobsen, stofnandi og helsti eigandi Lagersins, sagði í samtali við fréttastofu í dag að samkomulag sem fyrirtækið hefði gert við Nýja Kaupþing fæli ekki í sér neinar afskriftir á lánum bankans til Lagersins eða tengdra fyrirtækja. Lagerinn er í eigu Jakúps, sem á 82 prósent hlut og viðskiptafélaga hans, Jákups Purkhus, en hann á rúmlega 17 prósent hlut ásamt eiginkonu sinni. Jákup vildi ekki gefa upp hversu stóran hlut Nýja Kaupþing væri að eignast í Lagernum, en samkvæmt heimildum fréttastofu erum verulegan hlut að ræða.

Auk Rúmfatalagersins á fyrirtækið Ilvu-verslanirnar, og verslanir undir merkjum Jysk í bæði Kanada og Eystrasaltslöndunum. Fasteignafélagið SMI, dótturfélag Lagersins, á m.a 20 hæða turninn við Smáratorg í Kópavogi, sem er hæsta hús landsins, verslunarmiðstöðina Glerártorg á Akureyri, Korputorg og ýmsar fasteignir í Reykjavík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×