Viðskipti innlent

Economist: Togarasjómenn spila á gjaldeyrismarkaðinn

Hið virta hagfræðitímarit The Economist hefur birt grein undir fyrirsögninni „Togarasjómenn spila á gjaldeyrismarkaðinn". Þar er greint frá því að íslenskir sjómenn hafi í einhverjum mæli sent fisk á aðra markaði í Evrópu en Bretland þar sem pundið hefur gefið verulega eftir gagnvart evrunni á síðustu vikum og mánuðum.

Fram kemur í greininni að það er þorskur frá íslenskum sjómönnum sem sé uppistaðan í flestum „fish and chips" eða fiskur og franskrar veitingastöðum í Bretlandi. Honum er að mestu skipað upp og hann seldur á fiskmörkuðunum í Hull og Grimsby.

Þetta segir The Economist að fari stöðugt í taugarnar á sjómönnum í Skotlandi því verðin sem fást í Grimsby og Hull gefa tóninn hvað varðar verðmyndun á öðrum mörkuðum á Bretlandseyjum. Helsta kvörtun skoskra sjómanna nú sé að íslenskir sjómenn hafi landað svo miklu af þorski á þessum tveimur stöðum að það hafi haldið verðinu niðri.

„Þetta átti við um fyrrihluta ársins," segir Martin Boyers forstjóri fiskmarkaðarins í Grimsby í samtali við The Economist en hann reiknar með að ástæðan hafi verið sú að sjómennirnir hafi verið í leit að hörðum gjaldeyri í framhaldi af íslenska bankahruninu s.l. haust.

Hinsvegar hefur gengisfall pundsins gert það að verkum að breskar hafnir eru ekki lengur jafn aðlaðandi fyrir íslenska sjómenn og áður var. Af þeim sökum hafa landanir frá Íslandi dregist saman um 7% í ár í Grimsby m.v. sama tímabil í fyrra.

Indriði Ívarsson sölustjóri hjá Ögurvík segir í samtali við Fréttastofu að þeir hafi ekki dregið úr fisksölu sinni til Bretlands undanfarna mánuði enda hafa verð á þeim markaði verið að hækka undanfarið. Hinsvegar hafa töluverðar breytingar orðið á sölu til einstakra landa í Evrópu. Indriði nefnir sem dæmi að markaðir á Spáni og í Portúgal séu í mikilli lægð vegna kreppunnar. Á móti komi að karfamarkaðurinn í Þýskalandi hafi verið þokkalegur og að ágætur ufsamarkaður hafi skapast innarlega við Miðjarðarhafið eins og t.d. í Tyrklandi.

Lokorð greinarinnar í The Economist eru því líklega orð að sönnu en þar segir: „Til að ná árangri þessa dagana þurfa sjómenn að þekkja breytingar á neytenda- og gjaldeyrismörkuðum en ekki bara hvernig elta á uppi torfur á hafi úti."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×