Viðskipti innlent

Exista slær Íslandsmet í tapi

Sigríður Mogensen skrifar

Exista hefur slegið öll met í verstu afkomu íslensks fyrirtækis á einu ári, en félagið tapaði rúmum tvö hundruð milljörðum á síðasta ári. Launakostnaður nam fjórum milljörðum.

Exista rekur meðal annars tryggingafélagið VÍS og er eigandi Skipta, móðurfélags Símans.

Exista á nú í viðræðum við helstu lánveitendur sína, þar á meðal íslensku bankana, um fjárhagslega endurskipulagningu og framtíð. Félagið greiðir ekki vexti og afborganir af skuldum sínum meðan á þessum viðræðum stendur.

Launakostnaður Exista nam fjórum milljörðum króna á síðasta ári. Fjögur hundruð og tuttugu manns störfuðu fyrir félagið og dótturfélög þess og hefur því hver starfsmaður verið með um 750 þúsund á mánuði í laun. Þá námu launagreiðslur til stjórnarmanna og æðstu stjórnenda Exista og dótturfélaga samtals 500 milljónum króna.

Með tapi upp á rúma tvö hundruð milljarða hefur Exista slegið öll fyrri met. Eftir því sem fréttastofa kemst næst eiga Straumur, Eimskip, FL Group og Teymi heiðurinn af því, ásamt Existu, að hafa tapað mestum fjármunum á einu ári. - en samanlagt tap þeirra hleypur á 500 milljörðum króna - sem er talsvert meira en skatttekjur ríkissjóðs á hverju ári.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×