Erlent

Endurtalning atkvæða óhjákvæmileg

Dekkjaverkstæði undir kosningaskilti Lífið heldur áfram í Afganistan meðan atkvæði eru talin. Þessi mynd er frá borginni Mazar-i-Sharif í norðurhluta landsins.
fréttablaðið/AP
Dekkjaverkstæði undir kosningaskilti Lífið heldur áfram í Afganistan meðan atkvæði eru talin. Þessi mynd er frá borginni Mazar-i-Sharif í norðurhluta landsins. fréttablaðið/AP

Kvörtunarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna segir óhjákvæmilegt að atkvæði úr forsetakosningunum í Afganistan verði endurtalin á kjörstöðum, þar sem rökstuddur grunur leikur á kosningasvindli.

Nefndin hefur tekið á móti meira en 720 alvarlegum ásökunum um kosningasvindl. Meðal annars þykir grunsamlegt að Hamid Karzai hafi á tugum kjörstaða í suðurhluta landsins fengið atkvæði sem falla á sléttar tölur, svo sem 200, 300 eða 500.

Samkvæmt opinberum bráðabirgðatölum, sem birtar voru í vikunni, hefur Karzai fengið 54 prósent atkvæða en sigurstranglegasti mótframbjóðandinn, Abdullah Abdullah, aðeins 28 prósent.

Talning hefur hins vegar gengið hraðar í suðurhlutanum, þar sem fylgi Karzais er talið vera mest.

Fái hvorugur frambjóðenda meira en helming atkvæða þarf að efna til nýrra kosninga, þar sem valið stendur á milli þeirra tveggja sem flest atkvæði fengu.

Ekki var von á endanlegum tölum úr talningu fyrr en í lok september, en endurtalningin veldur því að lokaniðurstöður dragast væntanlega enn á langinn, jafnvel í tvo eða þrjá mánuði.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×