Viðskipti innlent

Forstjóri Straums með fjórar milljónir á mánuði

Helga Arnardóttir skrifar
Forstjóri Straums, sem lagði til milljarða bónus fyrir sig og samstarfsmenn sína á dögunum, er með fjórar milljónir í mánaðarlaun eða fjórföld laun forsætisráðherra landsins og rúmlega tvöföld mánaðarlaun bankastjóra Kaupþings og Íslandsbanka.

Samkvæmt frumvarpi sem nýlega var samþykkt á Alþingi stendur til að lækka laun starfsmanna ríkisins þannig að enginn hafi hærri laun en forsætisráðherra. Í þeim hópi eru bankastjórar ríkisbankanna þriggja en Kjararáð vinnur nú að því að ákvarða laun þeirra.

Laun bankastjóranna þriggja eru nokkuð hærri en laun forsætisráðherra, sem eru 935 þúsund krónur á mánuði. Ásmundur Stefánsson bankastjóri Landsbankans er með eina og hálfa milljón og þau Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka og Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Kaupþings eru með sautján hundruð og fimmtíu þúsund á mánuði. Laun Óttars Pálssonar forstjóra Straums hins vegar eru ríflegri eða fjórar milljónir á mánuði.

Staða Straums er ólík stöðu ríkisbankanna þar sem ríkið tók þá eignarnámi í hruninu. Í tilfelli Straums tók Fjármálaeftirlitið hins vegar tímabundið yfir stjórn bankans. Skilanefndin fer þar með æðsta vald með það að markmiði að koma bankanum í hendur kröfuhafa. Því hefur Straumur ekki þá skyldu líkt og ríkisbankarnir að gefa upp laun starfsmanna.

Óttar varð forstjóri Straums þegar félagið var tekið yfir af Fjármálaeftirlitinu í mars síðastliðnum. Hann hefur verið áberandi í umræðunni undanfarna daga þegar fréttir bárust af því að hann ásamt öðrum stjórnendum Straums hafði lagt til bónusgreiðslur upp á allt tíu milljörðum til sín og annarra starfsmanna fyrir að koma eignum bankans í verð.

Reynir Vignir formaður skilanefndar Straums vildi ekki tjá sig um laun Óttars þegar fréttastofa leitaði eftir því. Óttar vildi heldur ekki tjá sig um launin og skellti á fréttamann.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×