Viðskipti innlent

Lífeyrissjóðir gætu tapað milljörðum

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Lífeyrissjóðirnir gætu tapað tugum milljarða króna ef dómstólar úrskurða að kröfur þeirra í Straum njóti ekki forgangs. Slitastjórn Straums hefur ákveðið að vísa kröfum 30 aðila til úrskurðar hjá dómstólum.

Á fjórða hundrað kröfur eru gerðar í Straum fjárfestingabanka sem nema yfir 200 milljörðum króna. Ágreiningur hefur komið upp milli slitastjórnar og kröfuhafa og snýst hann m.a. um fjárhæðir krafnanna. Meðal þeirra mála sem send verða til úrskurðar dómstóla eru kröfur lífeyrissjóðanna en fram hefur komið að þær nemi hátt í 24 milljörðum króna. Meðal þeirra lífeyrissjóða sem um ræðir eru Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, lífeyrissjóður verslunarmanna, lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga og Gildi. Langflestar kröfur á lífeyrissjóðina eru þó án ágreinings um fjárhæðir krafna. Þar er deilt um hvort að lífeyrissjóðirnir eigi að njóta forgangs og hvort að þeir hafi skuldajafnarétt í uppgjöri milli Straums og gömlu viðskiptabankanna.

Áður en Straumur var tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu keypti bankinn skuldabréf af Lífeyrissjóðunum sem þeir áttu á Straum. Andvirði þeirra var lagt inn sem innlán í Straumi og við það féllu þau undir tryggingar innlána og loforð ríkisstjórnarinnar um að öll innlán væru tryggð og nytu forgangs.

Fjármálaeftirlitið mat það hinsvegar þannig eftir yfirtöku á bankanum að þetta væri fjármálagjörningur sem hefði verið til þess fallinn að koma þessum fjármunum undir tryggingarákvæði laganna og myndi ekki una því. Við þetta eru lífeyrissjóðirnir ósáttir. Enn er verið að vinna í málum flestra erlendra kröfuhafa og er reiknað með að þar verði lítið um ágreining. Nú þegar hefur slitastjórnin vísað nokkrum málum til dómstóla og er búist við restin af þeim fari sömu leið á næstu dögum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×