Innlent

Evrumaður var leiddur í gildru

evrusjóður Maðurinn var rændur evrum, sem námu um tveimur milljónum að verðmæti.
evrusjóður Maðurinn var rændur evrum, sem námu um tveimur milljónum að verðmæti.

Fullvíst er talið að karlmaður, sem um það bil tíu þúsund evrum var rænt af í Súðarvogi síðastliðið þriðjudagskvöld, hafi verið leiddur í gildru.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hafði maðurinn, sem er rétt rúmlega tvítugur, boðið evrusjóðinn til sölu á netinu og fengið viðbrögð þar. Síðan var hringt í hann úr leyninúmeri. Hringjandinn kvaðst vera tilbúinn að kaupa evrurnar af honum ásamt öðrum manni. Mælti hann sér mót við manninn í Súðarvogi um tíuleytið um kvöldið til að gera viðskiptin.

Þegar maðurinn mætti á staðinn hitti hann fyrir tvo grímuklædda menn. Þeir heimtuðu af honum evrurnar og sögðu honum að hann skyldi hafa verra af ef hann afhenti þær ekki mótþróalaust. Maðurinn taldi sig ekki eiga nema einn kost í stöðunni og lét hann því ræningjana hafa sjóðinn, sem nemur tveimur milljónum íslenskra króna. Þeir hurfu á braut að því loknu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins. Meðal annars er mannanna tveggja leitað, en þar sem evrueigandinn þekkti hvorki haus né sporð á þeim og þeir voru grímuklæddir liggur ekki fyrir lýsing á þeim.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×