Viðskipti innlent

Segir tvo banka nú stjórna Atlantic Petroleum

Færeysku bankarnir Eik Banki og Föroya Banki hafa í raun tekið yfir stjórnina á olíufélaginu Atlantic Petroleum að því er segir í frétt um málið í Berlingske Tidende. Allir þessir þrír aðilar eru skráðir í kauphöllinni hér á landi sem og í Kaupmannahöfn.

 

Blaðið fjallar um tilkynningu frá Atlantic Petroleum í dag þar sem greint er frá því að félagið hafi fengið varanlega framlengingu á tveimur brúarlánum frá fyrrgreindum bönkum. Lánin voru á gjalddaga í ár en voru framlengd til ársloka 2010.

 

„Þóknun bankanna var þó há. Þeir hafa í raun tekið við stjórn þessa litla olíufélags sem er skráð í kauphallirnar í Kaupmannahöfn og í Reykjavík," segir í Berlingske Tidende. „Bankarnar gerðu kröfu um að fá meirihluta í stjórn félagsins og þar með formann stjórnarinnar."

 

Jafnframt kemur fram í blaðinu að bankarnir geti sagt upp framlengingunni á lánunum ef Atlantic Petroleum fer í fjárfestingar án samþykkis bankana eða ef félaginu tekst ekki að afla sér nýs fjármagns á næstu sex til níu mánuðum.

 

Þá hafa bankarnir tekið veð í öllu hlutafé dótturfélags Atlantic Petroleum í Bretlandi. Sökum þessa hefur Kjartan Hoydal stjórnarformaður félagsins látið af störfum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×