Skoðun

Heilbrigðisþjónusta fyrir alla?

L-listinn hefur haldið uppi þremur samfélagslegum grunngildum sem lúta að fæðuöryggi heimila og þjóðar, húsaskjóli og heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð efnahag. L-listinn hefur boðið fram lausn fyrir heimili sem komin eru í greiðsluerfiðleika, en hún lýtur að því að ríkið kaupi skuldir skuldsettra heimila að hluta eða að fullu að undangengnu greiðslumati, og leigi skuldurum íbúðina og veiti þeim jafnframt forkaupsrétt að íbúðinni að kreppunni lokinni.

Ljóst er að atvinnulausir foreldrar með börn á framfæri búa við lítið sem ekkert fæðuöryggi, og vart má sjá að þær fjölskyldur eigi til hnífs og skeiðar. Ég vil varpa þeirri hugmynd til kjósenda að löggjafinn geri atvinnuleysisbætur friðhelgar gagnvart kröfuhöfum skuldara til að treysta fæðuöryggi heimila sem búa við atvinnuleysi.

Ljóst er að fjölskyldur sem búa við atvinnuleysi búa einnig við þá ógn að hafa ekki efni á venjulegri læknaþjónustu eins og sérfræðiþjónustu, rannsóknum, aðgerðum og lyfjakúrum. Við Íslendingar búum raunverulega við þær aðstæður, að heilbrigðisþjónusta er ekki lengur aðgengileg fyrir alla, heldur aðeins þá sem starfandi eru. Sjálfur vil ég sjá alla heilbrigðisþjónustu og lyfseðilskyld lyf frí fyrir atvinnulaust fólk og börn þeirra. Aðstæður eru orðnar svo alvarlegar í íslensku samfélagi, að þessir grunnþættir og gildi samfélagsins eru ekki lengur þeir hornsteinar sem þjóðin hvílir á.

Sem heilbrigðisstarfsmaður til margra ára hef ég rökstuddan grun um að ætla að það sé opinbert leyndarmál innan heilbrigðiskerfisins að stjórnmálamenn fái forgang í heilbrigðiskerfinu. Þá fara þeir efst á alla biðlista sem lúta að rannsóknum, meðferðum og aðgerðum. Svo koma þeir stjórnmálamenn sem njóta þessara forréttinda fyrir í fjölmiðlum rjóðir í vöngum og dásama íslenskt heilbrigðiskerfi. Ég vil varpa þeirri spurningu til heilbrigðisráðherra og landlæknis hvort þessi vinnubrögð séu enn gild innan heilbrigðiskerfisins, og vona um leið að svar þeirra verði sannleikanum samkvæmt.

Höfundur skipar 2. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir L-listann.






Skoðun

Sjá meira


×