Viðskipti innlent

Spáir að tólf mánaða verðbólga lækki milli mánaða

Samkvæmt spá Greiningardeildar Kaupþings mun vísitala neysluverðs hækka um 0,6% milli mánaða í ágúst. Sem fyrr liggur þó risavaxin óvissa í húsnæðislið vísitölunnar sem gæti breytt töluvert heildarniðurstöðunni fyrir vísitölu neysluverðs. Gangi spáin eftir verður 12 mánaða verðbólga í ágúst 10,8% samanborið við 11,1% verðbólgu í júlí.

Í spánni er ennfremur gert ráð fyrir talsverðri hækkun vísitölu neysluverðs í september, eða 0,9% miðað við að húsnæðisliðurinn verði svo gott sem óbreyttur.



Útsölulok hækka verðlag og minnkandi gengisáhrif

Að venju mun verðlag hækka í ágúst mánuði vegna þess að útsölum er í mörgum tilfellum lokið. Í ágúst 2008 hækkuðu föt og skór vísitöluna um 0,2% og mánuðinn á eftir hækkaði liðurinn vísitöluna um hálft prósent. Greiningardeildin gerir ráð fyrir að föt og skór muni hafa álíka áhrif á neysluverð og á sama tíma í fyrra.

Gengi krónunnar hefur sáralítið breyst síðustu tvo mánuði. Engu að síður er krónan talsvert veikari en hún var á fyrstu mánuðum þessa árs. Veikara gengi mun því áfram koma fram í hinum ýmsu liðum vísitölunnar á allra næstu mánuðum, en sterkustu áhrifin eru í innfluttum vörum.



Óvissa um húsnæðisliðinn

Greiningardeildin gerir ráð fyrir að áhrif húsnæðisverðs á vísitölu neysluverðs verði í kringum núllið en deildin vekur athygli á því að þetta er lang ótryggasta forsendan í spánni. Síðustu mánuði hafa sveiflur húsnæðisliðarins haft mjög mikil áhrif á mánaðarleg gildi verðbólgunnar.

Undanfarna mánuði hefur lítið mátt reiða sig á fasteignavísitölu Fasteignaskrár til að spá fyrir um húsnæðislið vísitölu neysluverðs. Hluti af skýringunni er ólík aðferðafræði hjá Hagstofunni og Fasteignaskrá sem og breytingar á aðferðafræði.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×