Viðskipti innlent

Verðbólga ekki lægri í ár

Snorri Jakobsson
Snorri Jakobsson

Verðbólga mælist nú 11,9 prósent og hefur hún ekki verið lægri síðan í apríl í fyrra. Verðbólgan gæti náð verðbólgumarkmiðum Seðlabankans um áramót, að mati sérfræðings IFS Greiningar.

„Þetta er lítillega yfir væntingum,“ segir Snorri Jakobsson, sérfræðingur hjá IFS Greiningar um verðbólguna í þessum mánuði.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,45 prósent á milli mánaða í apríl og fór verðbólgan við það úr 15,2 prósentum í 11,9 prósent, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar. Spá IFS Greiningar gerði ráð fyrir hækkun upp á 0,1 prósent og 11,5 prósenta verðbólgu. Snorri segir að frávikið frá spá IFS skýrist af meiri hækkun fasteignaverðs.

Hann segir í raun tvö fasteignaverð í gangi; eitt sem Fasteignaskrá ríkisins taki saman og annað hjá Hagstofunni, sem leiðrétti vegna makaskiptasamninga. Snorri bendir á að íbúðaverð í makaskiptasamningum sé oftast töluvert hærra en raunverulegt fasteignaverð þar sem það borgi sig fyrir báða aðila að verðið sé sem hæst. Það geti skekkt verðbólgutölurnar og dregið úr hjöðnun verðbólgu ef ekki er leiðrétt fyrir makaskiptum.

Snorri bendir á að krónan vegi þó þyngra.

„Ef hún verður til friðs og helst stöðug þá fellur verðbólgan hratt,“ segir hann.

Spá IFS Greiningar gerir ráð fyrir að mjög hratt dragi úr verðbólgu allt fram til loka næsta árs eftir snarpt verðbólguskot í ársbyrjun. Gangi spáin eftir verður verðbólga komin niður að 2,5 prósenta verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Gangi það eftir hefur verðbólga ekki verið lægri síðan í mars 2004. jonab@markadurinn.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×