Viðskipti innlent

EBÍ greiðir 300 milljóna arð til sveitarfélaga

Eignarhaldsfélagið Brunabótafélag Íslands (EBÍ) greiðir í dag samtals 300 milljónir króna í framlag til ágóðahlutar. Greiðslan rennur til þeirra sveitarfélaga sem aðild eiga að Sameignarsjóði EBÍ í réttu hlutfalli við eignaraðild þeirra að sjóðnum.

Í tilkynningu segir að EBÍ hafi um langt skeið greitt aðildarsveitarfélögum framlag til ágóðahlutar af starfsemi sinni. Með framlagi þessa árs hefur félagið samtals greitt aðildarsveitarfélögunum rúma 3,3 milljarða króna.

Akureyri fær hæstu greiðsluna, eða tæpar 40 milljónir króna. Til Kópavogs renna 26 milljónir, Reykjanesbær fær rúma 21 milljón í sinn hlut, Ísafjarðarbær og Fjarðabyggð rúmlega 14 milljónir, Vestmannaeyjabær 12 milljónir og Akraneskaupstaður rúmlega 10 milljónir.

Í samræmi við samþykktir félagsins mælast stjórn og fulltrúaráð EBÍ til þess við sveitarfélögin að þau verji framlaginu meðal annars til forvarna og brunavarna í sveitarfélaginu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×