Skoðun

Mikilvægi „sorpblaða“

Jón Trausti Reynisson skrifar
Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur sá ástæðu til að uppnefna DV „sorpblað" í pistli í Fréttablaðinu síðastliðinn mánudag. Ástæðan fyrir uppnefninu var að DV hafði gengið hart á eftir svörum hjá Davíð Oddssyni seðlabankastjóra, sama dag og forsætisráðherra og eflaust stór hluti þjóðarinnar beið svara frá honum.

Blaðamaður DV gerði sitt allra besta til að fá svör hjá seðlabankastjóranum, sem lauk með því að hann lýsti andstöðu sinni við að svara þar sem hann væri á leið í læknisskoðun. Fyrir tilviljun komst blaðamaðurinn að því að sú yfirlýsing Davíðs stóðst ekki, í það minnsta miðað við þá staðreynd að hann gekk rakleiðis í gegnum spítalann og stefndi út bakdyramegin, þar sem einkabílstjóri beið hans.

Nokkrum vikum áður hafði annar blaðamaður DV reynt að spyrja Davíð spurninga. Í það skiptið hunsaði hann blaðamanninn alfarið og talaði til heimiliskattar frekar en að svara spurningum.

DV hefur margítrekað lagt fyrirspurnir fyrir Davíð Oddsson seðlabankastjóra og reynt að ná tali af honum, en án árangurs. Auk þess hefur blaðið kært Seðlabankann á grundvelli upplýsingalaga. Eftir því sem næst verður komist hefur Davíð ekki svarað spurningum DV frá árinu 2005, þegar hann var valinn maður ársins af þáverandi ritstjórn.

Blaðamönnum hefur hins vegar gefist færi á að spyrja Davíð spurninga á blaðamannafundum Seðlabankans við stýrivaxtaákvarðanir. Þeir fundir virðast hafa verið lagðir niður. Davíð hefur ekki haldið blaðamannafund við stýrivaxtaákvörðun frá 11. september í fyrra.

Ef Guðmundi Andra Thorssyni mislíkar að fjölmiðill skuli heimta skýr svör til að upplýsa almenning má hann auðvitað hafa þá skoðun. Hann má líka dreifa þeirri skoðun í pistlum, þótt það sé óþarfi að nota uppnefni í því samhengi. Óháð því hefur DV ekki aðeins fullan rétt til að spyrja seðlabankastjóra og aðra ráðamenn spurninga og birta viðbrögðin, heldur líka skyldu til þess gagnvart lesendum.

Ef einhver telur að ágeng upplýsingaleit sem varðar almannahagsmuni beri vott um að fjölmiðillinn sé sorpblað, megi þá verða til fleiri sorpblöð hér á landi, og jafnvel sorpútvarps- og sjónvarpsstöðvar, sorpstjórnmálamenn, sorpgreiningadeildir og sorprithöfundar.

Eða höfum við ekkert lært af feluleik, útúrsnúningum og blekkingum ráðamanna síðustu ár?

Höfundur er ritstjóri DV.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×