Viðskipti innlent

Um 200 manns með aðstöðu á frumkvöðlasetrum

Á myndinni eru Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ.
Á myndinni eru Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra, Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ.

Um 200 manns eru nú með aðstöðu á frumkvöðlasetrum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands en áttunda frumkvöðlasetur miðstöðvarinnar var opnað með formlegum hætti í dag. Sex ný frumkvöðlasetur hafa verið opnuð eftir hrunið í fyrra og hafa um 150 störf myndast innan þeirra.

Í tilkynningu segir að nýjasta frumkvöðlasetrið, Kím - Medical Park, er ætlað fyrirtækjum í heilbrigðistækni og skyldum greinum og hafa tólf hátæknisprotafyrirtæki fengið aðstöðu þar. Við opnun Kíms í dag kom fram að innan heilbrigðistækninnar felast mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, enda markaður fyrir lækningatæki og heilsuvörur gríðarstór á heimsvísu.

Nox Medical, eitt fyrirtækjanna á setrinu, kynnti starfsemina á opnuninni en það hefur á síðastliðnum þremur árum þróað og sett á markað fullkomið svefngreiningartæki fyrir börn jafnt sem fullorðna. Búnaðurinn er nú þegar kominn á markað í Evrópu og Bandaríkjunum í gegnum lækningavörudreifingarfyrirtækið CareFusion.

Frá því að búnaðurinn fór í sölu í mars hefur hann selst langt umfram áætlanir fyrirtækisins og er nú gert ráð fyrir því að velta fyrirtækisins af þessum vörum verði yfir 120 milljónir íslenskra króna á þessu fyrsta söluári, að sögn Sveinbjarnar Höskuldssonar framkvæmdastjóra.

Á meðal annarra fyrirtækja á setrinu eru SagaMedica, sem framleiðir heilsuvörur úr íslenskum lækningajurtum, Medical Algorithms sem vinnur að hugbúnaðargerð fyrir lækningatæki, Valamed sem er að þróa lyfjanæmispróf fyrir hnitmiðaðri lyfjameðferð og Líf-Hlaup sem vinnur að þróun lyfjasamsetningar til notkunar á slímhúðir. Fyrirtækin tólf eru nú með 35 starfsmenn en enn er laus aðstaða á setrinu.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×