Innlent

Grunaðir mansalsmenn neita allir

Þrír íslenskir karlmenn og tvær konur voru handtekin í gær vegna rannsóknar á meintu mansali frá Litháen. Fimm litháískir karlmenn sitja þegar í gæsluvarðhaldi.

Málið upphófst á fimmtudag í síðustu viku þegar lögreglan lýsti eftir nítján ára litháískri stúlku sem talin er fórnarlamb mansals. Næstu dagana þar á eftir voru fimm Litháar handteknir og sitja þeir nú í gæsluvarðhaldi sem rennur út síðdegis í dag.

„Það hefur enginn játað þær sakir sem á þá eru bornar," segir Alda Hrönn Jóhannsdóttir, staðgengill lögreglustjórans á Suðurnesjum, sem fer með rannsókn málsins.

Alda segir að umfang rannsóknarinnar sé enn að vaxa. „Við erum að skoða allt sem kann að tengjast ætluðu mansali og allri annarri skipulagðri glæpastarfsemi og samskiptum og samkiptaformum við þessa menn sem við erum þegar með í gæsluvarðhaldi," segir hún.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins telur lögreglan sig komna á slóð skipulagðs mansalshrings. Íslendingarnir sem handteknir voru í gær eru á fertugs- og fimmtugsaldri og munu ekki vera þekktir afbrotamenn. Húsleit var gerð á heimilum þeirra allra á höfuðborgarsvæðinu í gær. Að auki var leitað í fyrirtækjum og öðru húsnæði. Aðgerðirnar stóðu fram á kvöld. Lagt var hald á bókhaldsgögn, skjöl og aðra muni.

Yfirheyrslur yfir Íslendingunum fimm stóðu fram á kvöld. Ákveða á í dag hvort krafist verði gæsluvarðhalds yfir þeim og framlengingar á varðhaldi Litháanna fimm. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins eru þeir meðal annars grunaðir um afbrot tengd fíkniefnum, handrukkunum og annað ofbeldi.

Við aðgerðirnar í gær naut lögreglan á Suðurnesjum aðstoðar frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og í Stykkishólmi og Ríkislögreglustjóra.

Stúlkan frá Litháen mun enn vera undir verndarvæng lögreglunnar hér á landi. - gar








Fleiri fréttir

Sjá meira


×