Viðskipti innlent

Gera alvarlegar athugasemdir við skattabreytingar

Ýmis samtök atvinnulífsins gera alvarlegar athugasemdir við boðaðar skattabreytingar stjórnvalda. Telja þau að breytingarnar hafi í för með sér ýmislegt óhagræði og aukinn kostnað.

Fjallað er um málið á vefsíðu Samtaka atvinnulífsins (SA) en þau ásamt Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, hafa sent Alþingi ítarlega umsögn um fyrirhugaðar skattabreytingar ríkisstjórnarinnar þar sem gerðar eru fjölmargar alvarlegar athugasemdir og þau vinnubrögð sem viðhöfð eru gagnrýnd harðlega.

Hagsmunaaðilar fengu aðeins örfáa daga til að kynna sér efni frumvarpsins sem hefur að geyma mjög róttækar breytingar á íslenska skattkerfinu.

Í umsögninni segir m.a.:

Þær breytingar sem í frumvarpinu felast á skattamálum fyrirtækja fela í sér ýmislegt óhagræði og hafa aukinn kostnað í för með sér fyrir fyrirtækin. Þá mun kostnaður skattyfirvalda aukast verulega vegna breytinga á tölvukerfum og eftirlits með flóknara skattkerfi, eins og fram kemur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarpið.

Þegar grundvallar breytingar á skattalegu umhverfi fyrirtækja eru fyrirhugaðar er óverjandi annað en að meta einnig kostnað fyrirtækja og áhrif á atvinnulífið. Þá ætti það að vera grundvallarforsenda að hafa náið samráð við sérfróða aðila þegar svo flóknar og umfangsmiklar breytingar eru gerðar á skattalegu umhverfi fyrirtækja og raun ber vitni."

Hægt er að sjá umsögnina í heild á vefsíðu SA.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×