Erlent

Amerískir flugmenn vilja svefnfrið undir stýri

Óli Tynes skrifar
Æ ég nenni þessu ekki lengur.
Æ ég nenni þessu ekki lengur.

Bandarísk flugfélög og samtök flugmanna þar í landi hafa sótt um það til flugmálastjórnar að flugmenn fái að sofa á löngum og leiðinlegum flugleiðum.

Flugmennirnir telja að þetta muni auka flugöryggi.

Svo menn haldi ekki að þetta sé til marks um að bandarískir flugmenn séu gengnir af göflunum er rétt að taka fram að mörg flugfélög í Evrópu og Asíu leyfa nú þegar flugmönnum sínum að sofa undir stýri.

Ekki kaffiþamb

Margar flugleiðir eru tíu eða tólf tíma langar og ekki skrýtið þótt einhverntíma sígi höfgi á menn. Þá þykir betra að leyfa mönnum að blunda og vakna svo hressir og endurnærðir frekar en reyna halda sér gangandi á kaffiþambi.

Þetta var tekið upp eftir að hætt var að hafa flugvélstjóra um borð þannig að nú eru tveir menn í stjórnklefanum í stað þriggja áður.

Tilkynnt um syfju

Um svefninn gilda auðvitað strangar reglur og sérstakt ferli. Þegar menn verða syfjaðir tilkynna þeir hinum flugmanninum um það. Hann tekur þá við allri stjórn vélarinnar. Þetta á auðvitað bara við þegar vélin er á sjálfstýringu í farflugshæð.

Sá syfjaði hallar svo sæti sínu aftur og sefur í hálftíma. Eins og þeir vita sem hafa prófað slíkan blund er það ótrúlega hressandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×