Innlent

Landið verður eitt skattumdæmi

Frá Alþingi Átján mál hafa orðið að lögum á haustþingi, þar af sextán á allra síðustu dögum. Þingfundur verður í dag, á laugardegi, auk þess sem fundað verður í mörgum nefndum.
fréttablaðið/pjetur
Frá Alþingi Átján mál hafa orðið að lögum á haustþingi, þar af sextán á allra síðustu dögum. Þingfundur verður í dag, á laugardegi, auk þess sem fundað verður í mörgum nefndum. fréttablaðið/pjetur

Frumvarp um sameiningu níu skattumdæma og ríkisskattstjóra í eitt embætti varð að lögum í gær. Tekur nýtt fyrirkomulag gildi um áramót. Ríkisskattstjóri fer með öll skattamál í landinu og starfrækir eina skattstofu í hverjum landsfjórðungi.

Stjórnarandstaðan lagðist gegn breytingunni.

Í vikunni urðu sextán frumvörp að lögum. Fjalla þau meðal annars um almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar, skaðabætur, lyf og innflutning svínasæðis.

Alls hafa átján mál orðið að lögum á haustþingi.

Miklar umræður urðu um frumvarp um umhverfis- og auðlindaskatta í þinginu í gær. Stjórnarandstæðingar töldu málið óhæfu og vildu vísa því frá en stjórnarliðar lögðu áherslu á nauðsyn þess að afla ríkinu tekna með nýju sköttunum.

Þingfundur verður í dag auk þess sem fundað verður í fjölda nefnda.

Icesave-mál verða til umræðu í utanríkismálanefnd og viðskiptanefnd en fjárlög og málefni þrotabús Landsbankans eru á dagskrá fjárlaganefndar.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, kvaðst í samtali við Fréttablaðið reikna með að ljúka umfjöllun um fjárlagafrumvarpið í dag og gæti það því komið til þriðju umræðu á mánudag.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×