Erlent

Síðasti fáninn frá Trafalgar

Óli Tynes skrifar
Fáninn af HMS Spartiate.
Fáninn af HMS Spartiate. Mynd/Getty Images

Tvöhundruð og fjögur ár eru í dag liðin frá því breski flotinn vann einn sinn frægasta sigur. Þá gersigraði hann miklu stærri flota Frakka og Spánverja við Trafalgar undan ströndum Spánar.

Sú orrusta er einnig fræg fyrir að Nelson lávarður flotaforingi Breta féll þar í valinn.

Dagurinn í dag var svo valinn til þess að halda uppboð á síðasta fánanum sem vitað er um að hafi verið við hún á bresku herskipi í orrustunni.

Það var á herskipi hennar hátignar Spartiate.

Í áhöfn Spartiate var meðal annarra lautinantinn James Clephan. Frammistaða hans í orrustunni var slík að að henni lokinni var honum afhentur fáni skipsins að gjöf.

Þessi fáni fannst nýlega niðri í skúffu hjá einum afkomanda lautinantsins. Á honum er göt eftir kúlur og sprengjubrot en að öðru leyti er hann vel með farinn.

Þessi fáni var semsagt settur á uppboð í dag. Menningarmálaráðherra Bretlands hefur lagt bann við að hann verði seldur úr landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×