Viðskipti innlent

Jólakort Samskipa renna til Fjölskylduhjálparinnar

Samskip hafa ákveðið að í stað þess að senda viðskiptavinum jólakort fyrir komandi jól renni andvirði þeirra til Fjölskylduhjálpar Íslands.

„Það veitir okkur mikla ánægju að geta lagt okkar af mörkum til þessa góða starfs sem hér er unnið," segir Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa í tilkynningu um málið. Á dögunum afhenti hann Matthíasi Imsland, stjórnarformanni Fjölskylduhjálparinnar, ávísun að upphæð 250 þúsund krónur til staðfestingar á þessari jólagjöf frá félaginu.

Ásbjörn kveðst þess fullviss að viðskiptavinir kunni bæði að virða og meta þessa ákvörðun félagsins og sendir þeim hugheilar jólakveðjur frá Samskipum.

„Þetta kemur svo sannarlega að góðum notum og við þökkum Samskipum kærlega fyrir stuðninginn," segir Matthías Imsland. „Þörfin fyrir aðstoð er alltaf að aukast og það eru framlög af þessu tagi sem leggja grunninn að því sjálfboðaliðastarfi sem við hjá Fjölskylduhjálpinni höfum staðið fyrir á undanförnum árum."

Öll framlög til Fjölskylduhjálparinnar fara til kaupa á matvælum og vikulega er úthlutað mataraðstoð til um 300 fjölskyldna sem eru í brýnni þörf. Fjölskylduhjálpin nýtur einnig góðs af beinum matargjöfum fyrirtækja og einstaklinga og nýlega hófst fjársöfnun meðal íslenskra fyrirtækja til að hægt verði að koma til móts við allar þær umsóknir um aðstoð sem Fjölskylduhjálin á von á nú fyrir jólin.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×