Viðskipti innlent

Kaupþing býður viðskiptavinum leiðréttingu á höfuðstólum lána

Kaupþing mun í lok vikunnar kynna aðgerðir til aðstoðar við viðskiptavini sína sem eru með húsnæðislán, meðal annars afskriftir á höfuðstól. Þá mun einnig skýrast hvernig eignarhald á bankanum verður.

Íslandsbanki var fyrstur til að bjóða viðskiptavinum sínum með húsnæðislán leiðréttingu á höfuðstólum lánanna. Leiðréttingin felst í 25% afskrift á höfuðstóli myntkörfulána og 10% á krónulánum. Tveimur dögum síðar tilkynnti félagsmálaráðherra um aðgerðir stjórnvalda. Beðið hefur verið eftir útspili Kaupþings þar sem Landsbankinn hefur gefið það út að ekki standi til að bjóða almennar leiðréttingar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Kaupþing nú fullmótað sínar aðgerðir. Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri, vildi ekki gefa upplýsingar um í hverju aðgerðirnar eru fólgnar en samkvæmt heimildum mun verða gefinn meiri afsláttur á höfuðstól en hjá Íslandsbanka.

Skilanefnd Kaupþings hefur farið yfir tillögurnar og er gert ráð fyrir því að þær verði kynntar í lok vikunnar. Þá mun einnig koma í ljós hvernig framtíðareignarhald á bankanum verður en skilanefndin hefur frest til 1. nóvember til að ákveða hvort hún eignist 87% hlut í nýja Kaupþingi. Skilanefndin mun funda um málið með kröfuhöfum í Lundúnum í vikunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×