Innlent

Össur: Kemur til greina endurskoða AGS áætlun

MYND/AP

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir eðlilegt að menn setjist niður og skoði hvort ástæða sé til þess að endurskoða áætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þetta kom fram í svari Össurar við fyrirspurn Illuga Gunnarssonar í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Illugi vildi annarsvegar fá að vita hvort Íslensk stjórnvöld hafi komið á framfæri mótmælum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess háttarlags sjóðsins að tengja áætlun AGS við Icesave deiluna. Hins vegar vildi Illugi vita hvort Össur tæki undir sjónarmið sjálfstæðismanna og stjórnarþingmanna á borð við Lilju Mósesdóttur þess efnis að nauðsynlegt sé að endurskoða áætlun AGS í ljósi breyttra aðstæðna.

Varðandi formleg mótmæli sagðist utanríkisráðherra ekki vita hvort þeim hafi verið komið á framfæri en hann sjálfur hafi hinsvegar gert það þegar hann hitti Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra sjóðsins á dögunum.

Að því er varðar endurskoðun á áætlun AGS benti Össur á að Íslendingar væru að mörgu leyti að standa sig betur en gert var ráð fyrir. Því væri að hans mati eðlilegt að menn setjist nú niður og skoði málið. Hann benti einnig á að það hafi komið skýrt fram hjá stjórnvöldum að athugað verði rækilega hvort þörf sé á því að taka öll þau lán sem núverandi áætlun býður upp á.




Tengdar fréttir

Vill semja upp á nýtt við AGS eða hætta samstarfinu

Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur og þingkona Vinstri grænna segir að efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi þarfnist róttækra breytinga. Í grein sem Lilja skrifar í Morgunblaðið í dag segir hún að í raun hafi sjóðurinn sagt upp samkomulaginu einhliða með því að standa ekki við sinn hluta. Greiðslur sem áttu að berast frá sjóðnum hafa ekki gert það og engar formlegar skýringar hafa borist á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×