Erlent

Þingmaður í nær hálfa öld

Á spjalli við forsetann Barack Obama og Edward Kennedy.Nordicphotos/AFP
Á spjalli við forsetann Barack Obama og Edward Kennedy.Nordicphotos/AFP

„Mikilvægum kafla í sögu okkar er lokið,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti þegar fréttir bárust af því að öldungadeildarþingmaðurinn Edward M. Kennedy væri látinn.

Hann var fyrst kosinn í öldungadeild Bandaríkjanna í nóvember árið 1962. Hann hafði því verið þingmaður í heil 47 ár þegar hann lést á þriðjudag af völdum krabbameins, sem hann hafði glímt við í rúmt ár.

„Í fimm áratugi hafa nánast öll lög, sem sett hafa verið til að efla borgararéttindi eða bæta heilbrigðisástand og efnahagslega velferð bandarísku þjóðarinnar borið nafn hans og verið afraksturinn af starfi hans,“ sagði Obama, og dró ekki úr þeirri aðdáun sem demókratar hafa á hinum nýlátna flokksbróður sínum, „frjálslynda ljóninu“ eins og þeir nefndu hann gjarnan.

Edward Moore Kennedy, jafnan nefndur Ted, varð langlífastur Kennedy-bræðranna, sem voru með valdamestu bræðrum Bandaríkjanna um það leyti sem Edward settist fyrst á þing.

Bróðir hans, John F. Kennedy, var myrtur í nóvember árið 1963 eftir að hafa verið forseti Bandaríkjanna í tæp þrjú ár. Þriðji bróðirinn, Robert F. Kennedy, var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn bróður síns, en féll einnig fyrir hendi morðingja sumarið 1968 í miðri kosningabaráttu til forsetaembættis.

Kennedy-fjölskyldan var ekki aðeins áhrifamikil í Bandaríkjunum heldur var einkalíf hennar linnulítið í kastljósi fjölmiðla.

Sjálfur varpaði Edward skugga á feril sinn, sem hann losnaði aldrei við, þegar hann varð valdur að dauða vinkonu sinnar síðla kvölds í júlímánuði árið 1969. Hann hafði verið að skemmta sér á Chappaquiddick-eyju með hópi ungra kvenna sem höfðu aðstoðað bróður hans í kosningabaráttunni árið áður. Einni þeirra, Mary Jo Kopeche, bauð hann far heim með sér, en sú ökuferð endaði úti í sjó með þeim afleiðingum að hún lést.

Kennedy fór af vettvangi án þess að tilkynna slysið, en baðst síðar afsökunar á því.

Kjósendur létu þó ekki þetta atvik stöðva sig í að kjósa hann áfram á þing, en þegar hann hugðist bjóða sig fram sem forsetaefni demókrata áratug síðar hafði Jimmy Carter betur.

Stuðningur hans við framboð Baracks Obama á síðasta ári virðist þó hafa ráðið miklu um að Obama varð forsetaefni demókrata, og vann síðan sigur þegar að kosningum kom.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×