Innlent

Framleiðendur velta tíu milljörðum króna

Framkvæmdastjóri Gogogic segir það hafa komið sér á óvart hvað tölvuleikjageirinn hér sé stór. Fréttablaðið/Anton
Framkvæmdastjóri Gogogic segir það hafa komið sér á óvart hvað tölvuleikjageirinn hér sé stór. Fréttablaðið/Anton
„Við höfum rætt um það í langan tíma að stofna samtök. Þegar við skoðuðum málið af alvöru á þessu ári kom það okkur í opna skjöldu hvað þessi iðnaður er stór,“ segir Jónas Björgvin Antonsson, framkvæmdastjóri tölvuleikjafyrirtækisins Gogogic.

Samtök leikjaframleiðenda verða stofnuð formlega síðdegis í dag. Innan þeirra eru í kringum tíu tölvuleikjafyrirtæki með um fjögur hundruð starfsmenn. Umsvifamest eru CCP, sem á og rekur fjölspilunarleikinn EVE Online, og Betware, sem framleiðir lausnir fyrir happdrættis-, talna- og getraunaleiki á borð við 1X2. Áætluð velta fyrirtækjanna er í kringum tíu milljarðar króna á þessu ári.

„Kreppuástand er það besta sem getur komið fyrir tölvuleikja­fyrirtæki,“ segir Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður hjá Samtökum iðnaðarins, en samtök leikjaframleiðenda munu eiga aðild að þeim.

Davíð segir samkeppnisaðstöðu fyrirtækjanna góða í skugga gengis­hrunsins. Hann segir frumkvæðið að stofnun samtakanna hafa komið frá fyrirtækjunum sjálfum.

„Það er mun betra að standa saman. Þá verða þau sýnilegri,“ segir hann. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×