Viðskipti innlent

Alvogen Group byggir upp starfsemi á Íslandi

Samheitalyfjafyrirtækið Alvogen Group ætlar að byggja upp hluta starfsemi sinnar á Íslandi, að því er segir í tilkynningu frá fyrirtækinu. Félag í eigu Róberts Wessman, fyrrum forstjóra Actavis, á ráðandi hlut í Alvogen.

Ætlunin er að hluti af stoðsviðum félagsins verði staðsett á Íslandi. Segir í tilkynningunni að stoðsviðin hafa það hlutverk að styðja við vöxt félagsins á erlendum mörkuðum og munu m.a. bera ábyrgð á stefnumótun og stjórnun verkefna sem snúa að samþættingu þróunar- og framleiðslueininga, skoðun fjárfestingatækifæra og uppbyggingu vörumerkis Alvogen.

Auk þess mun ýmis sérfræðiþjónusta, sem snýr að fyrrnefndum verkefnum, verða keypt hér á landi. Nú þegar hafa nokkrir lykilstjórnendur verið ráðnir til félagsins á Íslandi og erlendis og mun þeim fjölga á næstu misserum.

Fjalar Kristjánsson er einn þeirra og mun m.a. taka þátt í uppbyggingu þróunarstarfs félagsins. Hann lauk doktorsprófi í lyfjafræði frá University of Kansas árið 1987. Fjalar starfaði áður hjá lyfjafyrirtækjunum Delta og síðar Actavis á Möltu, Indlandi og í Búlgaríu.

Bjartur Login Ye Shen hefur einnig verið ráðinn og mun vinna við fjármálagreiningar og gerð viðskipta- og fjárhagsáætlana. Hann hefur lokið meistaranámi á sviði fjármála og hagfræði, auk BA gráðu í ensku. Bjartur starfaði áður sem lánastjóri hjá alþjóðasviði Glitnis og nú síðast sem sérfræðingur hjá Salt investments, félags í eigu Róberts.

Þá hefur Anna Kristín Ásbjörnsdóttir verið ráðin sem aðstoðarmaður stjórnarformanns Alvogen. Hún starfaði meðal annars hjá Glitni og stýrði eigin atvinnurekstri í Frakklandi í 10 ár.

Í dag starfa um 400 starfsmenn hjá Alvogen í Bandaríkjunum. Alvogen starfrækir lyfjaverksmiðju í New York ríki, sem getur framleitt um átta milljarða taflna á ári, að því er fram kemur í tilkynningunni.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×