Erlent

Vill verða járnfrú Noregs

Erna Solberg og Siv Jensen Leiðtogar stærstu stjórnarandstöðuflokkanna, Hægriflokksins og Framfaraflokksins, bera saman bækur sínar.Nordicphotos/AFP
Erna Solberg og Siv Jensen Leiðtogar stærstu stjórnarandstöðuflokkanna, Hægriflokksins og Framfaraflokksins, bera saman bækur sínar.Nordicphotos/AFP

Siv Jensen, leiðtogi Framfaraflokksins í Noregi, gæti komist í lykilstöðu við stjórnarmyndun að loknum þingkosningum á mánudag.

Samkvæmt skoðanakönnunum stendur hin rauðgræna ríkisstjórn Jens Stoltenbergs afar tæpt, en fátt bendir til að hægri flokkarnir nái meirihluta nema hafa Framfaraflokkinn með í stjórn.

Framfaraflokkurinn er hins vegar afar umdeildur bæði vegna róttækrar frjálshyggju og harkalegrar útlendingastefnu. Þótt Erna Solberg, leiðtogi Hægri flokksins, hafi sagst geta hugsað sér að mynda stjórn með Jensen, þá hafa hinir flokkarnir á hægri vængnum, Kristilegi þjóðarflokkurinn og frjálslyndi flokkurinn Venstre, sagt að það komi ekki til greina.

Jensen, sem virðist gera sér vonir um að verða eins konar Margaret Thatcher Noregs, segir af og frá að hún muni styðja nokkra ríkisstjórn, nema Framfaraflokkurinn sé innanborðs, sem þýðir að möguleikar á myndun minnihlutastjórnar verða afar takmarkaðir.

Dagblaðið Verdens Gang birti í gær skoðanakönnun þar sem spurt er hvaða forsætisráðherraefni flokkanna yrði skaðlegast Noregi. Nærri 59 prósent segja að Siv Jensen yrði Noregi verst, en tæp 22 prósent nefna Jens Stoltenberg og rúm fimm prósent Ernu Solberg.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×