Viðskipti innlent

Ríkissjóður þarf að reiða út 37 milljarða

Niðurstaða útboða vikunnar er sú að ríkissjóður þarf samtals að reiða fram 37 milljarða kr. í reiðufé til fjárfesta í dag og á mánudag. Eru þar erlendir aðilar fyrirferðarmestir.

Þetta kemur fram í umfjöllun greiningar Íslandsbanka í Morgunkorni sínu um útboð á ríkisbréfum í þessari viku. Þar segir að ríkissjóður hefur raunar töluvert borð fyrir báru hvað þetta varðar, enda námu nettóinnstæður ríkissjóðs og ríkisstofnana hjá Seðlabanka ríflega 180 milljörðum kr. í maílok.

Veruleg óvissa ríkir nú um hvert þeir miklu fjármunir muni leita sem losna við gjalddaga ríkisbréfa, ríkisvíxla og innstæðubréfa það sem eftir lifir mánaðar. Í dag er lokagjalddagi ríkisbréfaflokksins RIKB 09 0612. Alls fá fjárfestar þá í hendur ríflega 100 milljarða kr. að meðtöldum vaxtagreiðslum, og þar af greiðir ríkissjóður tæplega 77 milljarða kr.

Á mánudag er svo gjalddagi á ríkisvíxlum gefnum út í mars að upphæð 20 milljarða kr. Á móti voru gefin út ný ríkisbréf að upphæð u.þ.b. 46 milljarða kr. fyrr í þessari viku og svo víxlar fyrir 14 milljarða kr. í gær. Út af standa því um það bil 37 milljarðar kr. sem fjárfestar virðast ekki hafa áhuga á að endurfjárfesta í ríkispappírum að sinni.

Greiningin telur það talsvert áhyggjuefni hvað erlendir fjárfestar virðast hafa verið áhugalitlir um kaup á ríkispappírum í vikunni. Ein skýring kann að vera sú að erlendar krónueignir séu að hluta til að skipta um hendur.

Í maí voru til að mynda svokölluð jöklabréf á gjalddaga fyrir 18 milljarða kr. og í júní eru 14 milljarðar kr. á gjalddaga. Útgefendur þeirra bréfa hafa í töluverðum mæli fjárfest í ríkispappírum til að mæta greiðslum til eigenda bréfanna. Þegar dregur að gjalddaga innleysa þeir svo ríkispappírana og greiða krónurnar til endafjárfestanna.

Þeir síðarnefndu eru hins vegar margir og smáir og hafa oft ekki bolmagn til annars en leggja krónur sínar inn á bankareikninga. Sé þetta staðan gæti það leitt til þess að lausafjárstaða innlendra banka verði enn rýmri en nú er og bil milli innlánsvaxta á millibankamarkaði og stýrivaxta aukist enn frekar. Að sama skapi verða þá færri um hituna á eftirspurnarhlið markaðar með ríkisbréf, sem gæti þrýst kröfu þeirra eitthvað upp á við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×