Erlent

Yfir 2.000 fallnir í Ciudad á árinu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Lögreglumenn á vettvangi í Ciudad Juarez.
Lögreglumenn á vettvangi í Ciudad Juarez. MYND/CNN

Yfir 2.000 manns hafa látið lífið í átökum eiturlyfjagengja í mexíkósku borginni Ciudad Juarez það sem af er árinu en það eru nærri 400 fleiri en allt árið í fyrra.

Borgarstjórinn Jose Reyes Ferriz lét CNN þessar tölur í té í gær og þykja þær í meira lagi skuggalegar. Nánast má segja að stríð hafi geisað í Ciudad Juarez í 22 mánuði samfleytt og virðist það hafa haft takmörkuð áhrif þótt Felipe Calderon, forseti landsins, hafi kvatt herinn á vettvang til að stilla til friðar í borginni. Einkum eru það forsprakkar hringanna Sinaloa og Juarez sem berjast um yfirráðin á kókaínhraðbrautinni milli Ciudad Juarez og landamæraborgarinnar El Paso í Texas en um þá smyglleið fara mörg tonn af efninu ár hvert á markað í Bandaríkjunum.

Sinaloa-samtökin lúta stjórn Joaquin „El Chapo" Guzman en viðurnefnið El Chapo táknar sá stutti. Hann er sá maður sem mexíkósk yfirvöld þrá hvað heitast að koma bak við lás og slá, og þau bandarísku raunar líka, en það er nánast eins og maðurinn sé ósýnilegur þótt sennilega spili það einnig inn í að mexíkóska lögreglan er ekki beint sú heiðarlegasta í heimi og lítur gjarnan í hina áttina fyrir nokkur þúsund pesóa, svo ekki sé talað um dollara. Af þeim rúmlega 2.000 sem fallnir eru á þessu ári reikna yfirvöld með að um 100 séu saklausir vegfarendur sem voru einfaldlega á röngum stað á röngum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×