Viðskipti innlent

Verðbólgan enn langmest á Íslandi en fer lækkandi

Verðbólgan á Íslandi fer úr 16,0% í ágúst í 15,3% í september og lækkar því um 0,7 prósentustig milli mánaða samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs. Innan evrópska efnahagssvæðisins er verðbólgan langmest hér á landi.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að næstmest mælist verðbólgan Rúmeníu (4,9%), svo í Ungverjalandi (4,8%) og þar á eftir Póllandi (4,0%). Það var Hagstofa Evrópusambandsins sem birti tölur um þetta í gær.

Þrátt fyrir að verðbólgan hér á landi sé mjög mikil þá hefur hún lækkað samfellt frá því hún náði hámarki í 21,9% í janúar síðastliðnum. Að meðaltali er verðbólgan nú um 0,3% meðal ríkja EES en verðhjöðnun er að meðaltali í ríkum evrusvæðisins. Þar hefur samræmd vísitala neysluverðs lækkað um 0,3% á síðustu tólf mánuðum.

Flest ríki innan evrusvæðisins eru nú að upplifa verðhjöðnun. Verðhjöðnun fer gjarnan saman við samdrátt og vaxandi atvinnuleysi líkt og verið hefur víða í Evrópu undanfarið. Þannig er verðhjöðnunin mest 3,0% á Írlandi um þessar mundir en samdrátturinn í landsframleiðslu hefur verið þar mikill undanfarið og atvinnuleysi farið hratt vaxandi.

Stærsti munur samræmdrar vísitölu neysluverðs og þeirrar vísitölu sem hér á landi er almennt notuð sem mælikvarði á verðbólgu, er að íbúðaverð er ekki tekið beint inn í samræmdu vísitöluna.

Íbúðaverð hefur lækkað nokkuð undanfarið og mælist verðbólgan því hærri samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs en hinni hefðbundnu vísitölu neysluverðs. Samkvæmt þeirri síðarnefndu mældist verðbólgan í ágúst 10,9% eða 5,1 prósentustigum lægri en samkvæmt samræmdri vísitölu neysluverðs.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×