Erlent

Fimmtán ár fyrir að stinga með sprautunál

Óli Tynes skrifar
Urumqi héraðshöfuðborg Xinjiang.
Urumqi héraðshöfuðborg Xinjiang.

Ígúrar eru minnihlutahópur múslima í Kína. Þeir búa flestir í Xinjiang héraði þar sem þeir eru um tíu milljónir talsins.

Grunnt er þá því góða milli þeirra og Han kínverja sem eru yfirgnæfandi meirihluti íbúa landsins. Í sumar urðu óeirðir í héraðshöfuðborginni Urumqi sem kostuðu nær 200 manns lífið.

Undanfarnar vikur hefur gengið yfir hrina af árásum með sprautunálum. Kínverskir fjölmiðlar segja að yfir fimmhundruð manns hafi verið stungnir. Þetta hefur valdið ótta og óróa í Urumqi.

Nálarnar virðast þó vera hreinar því enginn hefur sýkst eða dáið. Níu manns hafa verið handteknir vegna þessa og réttað var yfir þeim í dag. Nöfn þeirra benda til þess að öll séu Ígúrar.

Xinhua fréttastofan segir að hinn nítján ára gamli Yilipan Yilihamu hafi verið dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir að stinga konu með sprautunál.

Maður og kona sem voru ákærð fyrir að hafa ógnað leigubílstjóra með sprautunál og rænt hann fengu tíu og sjö ára fangelsisdóma.

Réttarhöldin voru opin en öflugur lögregluvörður var um dómshúsið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×