Innlent

Umboðsmaður Alþingis tekur undir sjónarmið fanga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Litla Hraun. Mynd/ GVA.
Litla Hraun. Mynd/ GVA.
Dómsmálaráðuneytið þarf að taka til endurskoðunar málefni fanga sem kvartaði til ráðuneytisins vegna agaviðurlaga sem Fangelsisstjórinn á Litla Hrauni beitti hann. Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns Alþingis.

Fanginn leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði dóms- og kirkjumálaráðherra, nú dómsmála- og mannréttindaráðherra, þar sem staðfest var sú ákvörðun forstöðumanns fangelsisins að Litla-Hrauni um að fanginn skyldi sæta agaviðurlögum vegna þess að hann hafði undir höndum óheimilar lyfjatöflur.

Deildarstjóri, hjúkrunarfræðingur og sálfræðingur í fangelsinu sögðu að lyfið sem um ræddi væri ritalin, en fanginn fullyrti sjálfur að þau væru blóðþynningarlyf. Eftir að lyfin fundust á honum við leit í klefa hans var hann sviptur hálfum launum, aukabúnaður sem hann mátti hafa inni í klefa var takmarkaður og reglur um heimsóknir til hans voru þrengdar.

Umboðsmaður Alþingis telur að ráðuneytið hefði átt að kanna hvort umrædd lyf hafi verið blóðþynningarlyf. Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til ráðuneytisins að það taki mál fangans til endurskoðunar komi fram beiðni þess efnis frá honum. Þá vill umboðsmaður Alþingis að gerðar verði ráðstafanir til að koma á skilvirkara og kerfisbundnara skipulagi í ríkisfangelsinu að Litla-Hrauni og öðrum fangelsum landsins, í þeim tilvikum þegar grunur vaknar um brot fanga á 5. grein fangelsisreglna. Í greininni er meðal annars fjallað um bann við meðferð fanga á ólöglegum lyfja.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×