Viðskipti innlent

Exista vill lögbann á 13 milljarða millifærslu

Exista hefur lagt fram lögbannskröfu á millifærslu upp á 13 milljörðum króna úr Nýja Kaupþingi yfir í gamla Kaupþing. Lögbannsbeiðnin verður líklega tekin fyrir síðar í dag. Þetta sagði Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Exista á hluthafafundi félagsins sem nú stendur yfir. Breytingar eru fyrirhugaðar í stjórn félagsins en þó ekki fyrr en „árásum" hinna gjaldþrota íslensku banka hefur verið hrundið, eins og Lýður orðaði það.

Í máli Lýðs kom einnig fram að í byrjun apríl hefði Exista náð samkomulagi við 37 stærstu kröfuhafa félagsins, en um er að ræða erlenda banka. Félagið skuldar um einn milljarð evra, eða 177 milljarða króna, og sagði Lýður að samkvæmt samkomulaginu sem náðst hafi við kröfuhafana taki það Exista 12 ár að borga niður skuldina.

Stjórnarformaðurinn sagði einnig merkilegt hve vel hefði gengið að ná samkomulagi við erlendu kröfuhafana á meðan ekkert hefði gengið í samningaviðræðum við innlendu bankana. Skilanefndir innlendu bankanna vilja skipta Exista upp í sjálfstæðar einingar en því hafna stjórnendur Exista alfarið.

Hluthafafundurinn í dag er haldinn til þess að gera breytingar á samþykktum félagsins á þá leið að aðalfundur Exista, sem átti að vera í lok maí, verður í lok ágúst.












Tengdar fréttir

Skilanefndir vilja skipta Existu upp í sjálfstæðar einingar

Stjórnendur Exista og stærstu kröfuhafar félagsins deila nú um framtíð félagsins. Skilanefndir bankanna ásamt Nýja Kaupþingi mynda stærsta hóp kröfuhafa og vilja að Exista verði skipt upp í sjálfstæðar einingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×