Viðskipti innlent

Skilanefndir vilja skipta Existu upp í sjálfstæðar einingar

Stjórnendur Exista og stærstu kröfuhafar félagsins deila nú um framtíð félagsins. Skilanefndir bankanna ásamt Nýja Kaupþingi mynda stærsta hóp kröfuhafa og vilja að Exista verði skipt upp í sjálfstæðar einingar.

Þetta myndi þýða að félög á borð við VÍS, Símann og Lýsingu yrðu tekin út úr Exista og rekin sem sjálfstæð fyrirtæki með eigin yfirstjórnir. Telja kröfuhafarnir að með þessu sé hægt að hámarka andvirði eignanna betur en ef núverandi fyrirkomulagi er haldið áfram. Málið mun hafa verið rætt við erlenda kröfuhafa Exista sem einkum eru bankar og fjármálastofnanir í London.

Stjórn Exista er alfarið á móti þessum hugmyndum og telur hag félagsins betur borgið ef fyrrgreind fyrirtæki verði áfram innan Exista. Nokkur bréfaskrif hafa verið milli aðila en engin niðurstaða fengin.

Árni Tómasson formaður skilanefndar Glitnis segir að menn séu einfaldlega að leita að bestu leiðunum til að hámarka andvirði eigna Exista. Ekki standi til að selja neitt af eignunum við núverandi markaðsaðstæður.

„Menn eru að skoða ýmsa möguleika og væntanlega finnst einhver lausn á málinu bráðlega," segir Árni en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Skilanefnd Kaupþings vill heldur ekki tjá sig um málið og svarar fyrirspurn á þá leið að nefndin tjái sig ekki um viðskipti einstakra aðila og telji þetta Exista-mál vera þess eðlis.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×