Viðskipti innlent

Fyrirtækin óttast meiri samdrátt landsframleiðslu en spáð er

Reynist spá 500 fyrirtækja á landinu um samdrátt í veltu þeirra nærri lagi, er ástæða til að óttast að samdráttur í landsframleiðslu á þessu ári verði ennþá meiri en opinberar spár gera ráð fyrir.

Þetta segir í nýrri könnun sem birt hefur verið á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins (SA). Sem kunnugt er gera opinberar spár ráð fyrir tæplega 10% samdrætti landsframleiðslunnar í ár.

Í heild spá fyrirtækin 9,8% lækkun á veltu milli ára, samkvæmt könnun SA. Ef gengið er út frá 12% meðalhækkun verðlags milli ára felst í þessu 19,5% samdráttur að raunvirði. Til samanburðar má geta þess að samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins frá því í janúar er gert ráð fyrir tæplega 10% magnsamdrætti í landsframleiðslu á þessu ári. Þar er gengið út frá því að 1,6% raunvöxtur verði í samneyslu milli ári.

„Er því ljóst að gera má ráð fyrir að samdráttur í umsvifum einkafyrirtækja milli ára verði ennþá meiri en sem nemur minnkum landsframleiðslu," segir í könnun SA.

Samkvæmt svörum í könnuninni virðist einsýnt að hagnaður fyrirtækja sem hlutfall af veltu verði minni á árinu 2009 en 2008, en tæpur helmingur (49%) fyrirtækjanna telja að svo verði, á móti því sem um 32% búast við meiri hagnaði, en óbreytts hagnaðar er vænst hjá um 19% fyrirtækjanna.

Ekki kemur fram mikill munur á þessu mati eftir atvinnugreinum, en lakastar horfur eru þó í sjávarútvegi, þar sem um 75% fyrirtækja búast við minni (50%) eða miklu minni (25%) hagnaði á árinu 2009. Í engri atvinnugrein koma fram skýr merki um aukinn hagnað á árinu 2009.

Athygli vekur að þrátt fyrir veikt gengi krónunnar um þessar mundir ríkir lítil bjartsýni um þróun eftirspurnar eftir vöru og þjónustu á erlendum mörkuðum. Telja aðeins um 10% fyrirtækja í sjávarútvegi að eftirspurn á erlendum mörkuðum muni aukast á næstu sex mánuðum, um 40% búast við óbreyttri eftirspurn, en um 50% vænta samdráttar í eftirspurn.

Í iðnaði og framleiðslu eru horfurnar skárri en þó ekki bjartar. Er þar ámóta stórt hlutfall fyrirtækja sem búast við aukinni erlendri eftirspurn (38%) og þeirra sem vænta samdráttar (40%), en röskur fimmtungur (22%) væntir ekki breytingar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×