Innlent

Hægt að ná árangri í óbreyttu skattkerfi

Finnur Oddsson og Tómas Már Sigurðsson Finnur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og Tómas Már formaður. Þeir kynntu í gær, ásamt Frosta Ólafssyni aðstoðar­framkvæmdastjóra, nýja skýrslu ráðsins um fjármál hins opinbera. Fréttablaðið/Vilhelm
Finnur Oddsson og Tómas Már Sigurðsson Finnur er framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og Tómas Már formaður. Þeir kynntu í gær, ásamt Frosta Ólafssyni aðstoðar­framkvæmdastjóra, nýja skýrslu ráðsins um fjármál hins opinbera. Fréttablaðið/Vilhelm

Mælt er með blandaðri leið skattahækkana og aðhalds hjá hinu opinbera í nýrri skýrslu sem Viðskiptaráð Íslands gaf út í gær um fjármál hins opinbera. Á kynningu ráðsins á skýrslunni kom fram að með skattahækkunum og aðhaldi í óbreyttu skattkerfi mætti ná sama árangri og stefnt er að hjá stjórnvöldum með víðtækum skattkerfisbreytingum og hækkunum skatta.

Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir forsvarsmenn ráðsins hafa saknað þess að fram færi umræða af „meiri dýpt“ þegar til stæðu einhverjar umfangsmestu breytingar á skattkerfi landsins sem lengi hafi verið gerðar. „Stefnan nú jafngildir því nánast að skipta um bát í haugasjó án þess að vita í raun hvort sá bátur sem farið er í sé sjófær,“ segir hann. „Ákvarðanir okkar í fjármálum hafa áhrif á trúverðugleika okkar út á við og veruleg áhrif á samkeppnishæfi atvinnulífsins í heild. Við þurfum að forðast að fólk og fjármagn flýi og komum því fram með hugleiðingar okkar nú.“

Í skýrslunni er bæði farið yfir þær ráðstafanir skattamála sem til stendur að ráðast í samkvæmt fjárlögum ársins 2010 og tillögur Viðskiptaráðs um aðrar leiðir.

Fram kemur í skýrslu viðskiptaráðs að útþensla ríkisins hafi óvíða verið meiri en hér síðustu ár. Þannig hafi opinber útgjöld aukist fimmfalt hér á landi miðað við það sem gerst hafi að meðaltali í ríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) síðustu þrjátíu ár. Þar nemi hækkunin fimm prósentum, en 25 prósentum hér. „En aðlögunin nú fer fyrst og fremst fram í gegnum einkageirann,“ segir Finnur.

Í kynningu Viðskiptaráðs á skýrslunni segir hins vegar að í þeirri stefnu sem mörkuð hafi verið felist takmarkaður niðurskurður útgjalda og veruleg aukning skattheimtu. „Þessi leið er að mati Viðskiptaráðs afar misráðin og dregur úr sjálfbærni ríkisfjármála til framtíðar. Við núverandi aðstæður er heppilegra að stjórnvöld velji hagnýtar leiðir sem byggja á raunsæi og varðstöðu um heildarhagsmuni,“ segir þar.

Meðal tillagna ráðsins er endurskoðun á útgjaldaliðum ráðuneyta og tekjuöflun í gegnum lífeyrissjóði og með sölu ríkiseigna, efling fjárlagaferlisins og fjölmargir fleiri þættir. olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×