Viðskipti innlent

Gunnlaugur gáttaður á RUV, krefst viðtals við útvarpsstjóra

Gunnlaugur Sigmundsson segir að hann sé gáttaður á fréttaflutningi Spegilsins á RUV af félagi hans GSSG Holding. Af þessum sökum hefur hann krafist þess að fá viðtal við Pál Magnússon útvarpsstjóra.

„Ég hef átt þetta félag í níu ár og það er alls ekkert leyndarmál. Það getur skattstjóri vottað um. Ég hef greitt skatta af því allan tímann hérlendis," segir Gunnlaugur.

Í umfjöllun Sigrúnar Davíðsdóttur í Speglinum er tekið fram að GSSG Holding sé félag í Lúxemborg sem er þjónustað af Havilland bankanum í Lúxemborg en sá banki var áður dótturfélag Kaupþings. Gunnlaugur er sá eini sem nafngreindur er í pistlinum og sérstaklega tekið fram að hann sé faðir Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar formanns Framsóknarflokksins.

„Ég skil ekki afhverju verið er að draga son minn inn í þessa umræðu og þar að auki skil ég ekki afhverju mitt félag er hið eina af 24 slíkum í eigu Íslendinga hjá Havilland sem er nafngreint í þessum pistli," segir Gunnlaugur.

Fram kemur í máli Gunnlaugs að hann ætli m.a. að ræða við útvarpsstjóra hvort það sé tilviljun að hann er nafngreindur með þessum hætti á RUV.

„Ég kom með harða gagnrýni á fréttaflutning RUV af öðru máli nýlega, gagnrýni sem fór mjög fyrir brjóstið á fréttastjóra RUV," segir Gunnlaugur. „Ég ætla að spyrja útvarpsstjóra hv ort eitthvað samhengi sé þar á milli."

Fréttaflutningur sá sem Gunnlaugur vísar hér í fjallaði um götur og hverfi sem eru tilbúin undir byggingar en ekkert hefur verið byggt á vegna kreppunnar. Í fréttaflutningnum var rætt við Dag B. Eggertsson sem skellti skuldinni af þessum auðu svæðum á Sjálfstæðisflokkinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×