Viðskipti innlent

Þrotabú Samson stefnir Nýja Kaupþingi

Fyrirtaka er í þar næstu viku í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna stefnu þrotabús Samson gegn Nýja Kaupþingi. Málið snýst um að Nýja Kaupþing tók fé, samtals 520 milljónir kr., af reikningi Samson í bankanum til að greiða inn á lán sem Björgólfsfeðgar fengu upphaflega í Búnaðarbankanum 2003 til að fjármagna þriðjung af kaupverði Landsbankans.

Helgi Birgisson skiptastjóri þrotabús Samson segir að samkvæmt gjaldþrotalögum hafi bankanum verið óheimilt að taka þessa peninga þar sem slíkur gjörningur gengur á rétt annarra kröfuhafa. Um þetta sé tekist á í þessu máli. Samson hafi ekki fengið tilkynningu frá bankanum um það sem bankinn kallar skuldajöfnun upp í Landsbankakaupaskuldina.

Aðspurður um hvort Nýja Kaupþing hafi tekið peningana af reikningnum fyrir eða eftir að Samson var lýst gjaldþrota segir Helgi að það skipti ekki máli. „Samkvæmt gjaldþrotalögunum er einnig óheimilt að taka fé úr félagi korteri fyrir gjaldþrot með þessum hætti," segir Helgi.

Fyrrgreindu láni hefur verið skuldbreytt mörgum sinnum frá því það var tekið og stendur nú í rúmum 5 milljörðum kr. eftir að Nýja Kaupþing skuldajafnaði fyrrgreindum hálfum milljarði kr.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×