Innlent

Meintur ritstuldur á Bifröst í rannsókn

Yfirstjórn Háskólans á Bifröst rannsakar nú meintan ritstuld lögfræðings sem útskrifaðist frá skólanum árið 2008. Maðurinn er grunaður um að hafa stolið lokaritgerð í lögfræði við háskólann.

„Það hefur komið upp mál sem hefur aldrei gerst hér áður og við erum að skoða það," segir Ágúst Einarsson, rektor Háskólans á Bifröst. Málið kom upp í sumar og stendur rannsókn háskólans enn yfir. Ágúst telur líklegt að niðurstöður fáist bráðlega, en vill ekki tímasetja þær nánar.

„Það er grunur um ritstuld sem þarf að skoða mjög vandlega, og það er það sem við erum að gera," segir Ágúst. „Þetta tekur bara sinn tíma, það er farið mjög vandlega yfir þetta og gætt að öllum formreglum."

Ágúst vill ekki segja til um hverjar afleiðingarnar gætu orðið komi í ljós að um ritstuld sé að ræða. „Ég get ekki gefið mér neitt á þessu stigi málsins. Þetta hefur aldrei komið upp hjá okkur aftur, en við tökum þetta föstum tökum og lítum þetta alvarlegum augum," segir Ágúst.

Spurður hvort ekki sé alvarlegt mál ef maður starfi sem lögfræðingur á meðan mál hans séu í rannsókn segir Ágúst: „Við lítum málið alvarlegum augum, ég get ekki orðað það neitt öðruvísi. Við tökum líka á því þannig."

Ágúst bendir á að hliðstæð mál hafi komið upp í öðrum skólum. Mál af þessu tagi séu farin að verða meira vandamál í háskólum hérlendis og erlendis með vaxandi netnotkun. Það breyti þó engu um alvarleika málsins.

brjann@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×