Skoðun

Þorkell á betra skilið

Margeir Pétursson skrifar

Það verður ekki hjá því komist að gera alvarlega athugasemd við umfjöllun dr. Þorvaldar Gylfasonar, prófessors í Fréttablaðinu sl. fimmtudag undir fyrirsögninni „Fjórar bækur um hrun". Þar fjallar hann um nýja bók með eftirfarandi hætti:

„Bók Þorkels Sigurlaugssonar, Ný framtíðarsýn, er af öðrum toga af kápunni að dæma. Þar fjallar eitt hvellasta gjallarhorn útrásarinnar um endurreisn efnahagslífsins og bætt viðskiptasiðferði. Ég hef ekki lesið bókina og hef því ekkert meira um hana að segja."

Þetta er afskaplega ósanngjörn afgreiðsla sem ekki verður unað við af hálfu þeirra sem þekkja til starfa og ferils Þorkels Sigurlaugssonar og hafa þar að auki lesið bók hans. Allt sem Þorkell hefur ritað undanfarna áratugi byggir einmitt á því að vanda þurfi mjög til stjórnunarhátta fyrirtækja og byggja þurfi þau upp á heilbrigðan hátt. Ég held að ekkert geti verið fjarlægara hans gildum en að hægt sé að ná í skjótfenginn gróða með því að stækka sem hraðast og skuldsetja sig sem mest.

Það var einmitt langtímahugsun Þorkels sem viðskiptalífið skorti mjög á árunum 2003-2008, þegar allt virtist svo auðvelt. Þorkell starfaði hjá Eimskip á níunda og tíunda áratugnum þegar félagið innleiddi nýja og agaðri stjórnunarhætti, sem mörgum urðu fyrirmynd. Hann hefur ávallt haft brennandi áhuga á stjórnun og stefnumótun fyrirtækja og verið ötull við að miðla af reynslu sinni og þekkingu. Þorkell tók t.d. að sér að koma að stjórnum ýmissa sprotafyrirtækja og ber þar hæst Marel og Össur, auk margra annarra. Í gegnum alla þá reynslu þekkir Þorkell manna best að það kostar mikið erfiði og fórnir að koma á fót fyrirtæki sem er arðbært og veitir mörgum atvinnu.

Um svipað leyti og nýir menn með nýja siði tóku yfir rekstur Eimskips söðlaði Þorkell um og hóf störf við Háskólann í Reykjavík. Hans viðhorf fóru líka úr tísku í nokkur ár, en nú er hans tími kominn eins og fleiri. Það er gott til þess að hugsa í núverandi erfiðleikum að ungt og metnaðarfullt fólk geti leitað í smiðju hans. Rit hans Ný framtíðarsýn er jákvætt og þarft innlegg í umræðuna um framtíð Íslands, sem allir ættu að kynna sér.

Þorkell Sigurlaugsson þekkir mikið mótlæti vegna fötlunar, en lætur það ekki á sig fá. Það eru þeir menn sem gefast ekki upp við andstreymi sem vert er að hlusta á núna.

Höfundur er stjórnarformaður MP Banka.






Tengdar fréttir

Hönnun og list

Talsverðar umræður hafa spunnist út af bókun okkar í menningar- og ferðamálaráði Reykjavíkur út af vali á borgarlistamanni í ár. Eins og gjarnan gerist koma fram ýkjur og oftúlkanir, og rökræn niðurstaða nokkrum setningum síðar er sú að undirrituð séu óbærilega hrokafull og gjörræðisleg. Svona vill þetta nú oft verða í umræðum á Íslandi, fólk verður stóryrtara en það þarf að vera.




Skoðun

Sjá meira


×