Innlent

Glæsileg fánareið við Iðnó

fánareið Fánareið verður við Iðnó í dag. Þessi reið var á Kaldármelum.
fánareið Fánareið verður við Iðnó í dag. Þessi reið var á Kaldármelum.

Hópur hestamanna mun mæta á gæðingum sínum í fánareið við Iðnó klukkan 14.15 í dag.

Þetta er upphaf veglegrar afmælishátíðar Landssambands hestamannafélaga sem hefst klukkan 15.00 í Iðnó. LH var stofnað nánast á sama stað og afmælishátíðin er haldin nú, í Baðstofu iðnaðarmanna 18. desember árið 1949 þar sem tólf hestamannafélög lögðu grunninn að sambandinu.

Á hátíðinni verður athygli vakin á fjölþættu hlutverki íslenska hestsins og því viðamikla og blómlega starfi sem honum tengist, bæði hér á landi og erlendis.

Meðal annarra mun Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra ávarpa samkomuna. Þá verða flutt fróðleg erindi um ýmislegt viðkomandi íslenska hestinum.

Dísella Lárusdóttir syngur og Gunnar Eyjólfsson flytur ljóð. Fundarstjóri hátíðarinnar verður Friðrik Pálsson. Dagskráin er öllum opin meðan húsrúm leyfir.

Landsmótið á Vindheimamelum í sumar verður svo hápunkturinn og hin eiginlega afmælisveisla allra hestamanna. Landssamband hestamannafélaga er aðili að Íþróttasambandi Íslands. 47 félög eiga aðild að sambandinu og er formaður þess Haraldur Þórarinsson. - jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×