Viðskipti innlent

Aalborg Portland mótmælir ríkisaðstoð Sementsverksmiðjunnar á Akranesi

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Sementsverksmiðjan á Akranesi.
Sementsverksmiðjan á Akranesi.
Bjarni Óskar Halldórsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar Aalborg Portland á suðurnesjum, er ekki sáttur við að Sementsverksmiðjan á Akranesi krefjist þess að ríkið hlaupi undir bagga með Sementsverksmiðjunni og mismuni hinu danska Aalborg Portland svo þjóðin fái aftur notið sements frá Sementsverksmiðjunni á Akranesi, sem nú er í eigu einkaaðila.

Í fréttatilkynningu frá Aalborg Portland kemur fram að félagið hafi rofið áratuga einokum Sementsverksmiðju ríkisins með því að hefja innflutning á sementi árið 2000. Viðtökurnar hafa verið afar góðar að sögn framkvæmdastjórans og hefur félagið fjárfest fyrir hundruðir milljóna króna í tækjum og aðstöðu í Helguvík.

Auk þess kemur fram að Aalborg Portland hafi engan áhuga á einokun á íslenskum sementsmarkaði heldur þvert á móti samkeppni íslenskum neytendum í hag, hvort sem það er frá Sementsverksmiðju á Akranesi í eigu íslenskra og norskra fyrirtækja eða öðrum.

„Hver sem er getur flutt sement til landsins, líkt og Aalborg Portland gerir. Hjá félaginu vinna íslenskir starfsmenn, flestir á Suðurnesjum. Í kreppunni hefur félagið því miður þurft að draga saman segl og fækka starfsfólki líkt og mörg önnur fyrirtæki," segir Bjarni.

Fyrir sex árum seldi ríkissjóður Sementsverksmiðjuna á Akranesi þremur einkafyrirtækjum; BM Vallá, Björgun og hinu norska Norcem.



Ríkissjóður borgaði með sölunni á Sementsverksmiðjunni



Ríkissjóður þurfti að leggja fram um það bil hálfan milljarð króna með verksmiðjunni, auk þess að taka yfir lífeyrisskuldbindingar fyrir sömu upphæð og beita sér fyrir sérsamningi á raforku og undanþágu frá umhverfisskatti sem evrópskar verksmiðjur víðast hvar þurfa að greiða.

Í tilkynningunni kemur fram að þrátt fyrir ríflegt framlag til einkaaðila, skuldasöfnun Sementsverksmiðjunnar undanfarin ár, samkvæmt lánabók Kaupþings og gríðarlega sementssölu í góðærinu er upplýst að slökkva eigi á kolakyntum sementsofni á Akranesi vegna rekstrarerfiðleika.



Ríkið hlaupi undir baggameð Sementsverksmiðjunni

Þess er krafist að ríkið hlaupi undir bagga og mismuni hinu danska Aalborg Portland svo þjóðin fái aftur notið sements frá Sementsverksmiðju á Akranesi, nú í eigu einkaaðila.

„Forsvarsmenn Samtaka iðnaðarins halda því fram að að íslensk einokun sé betri en dönsk og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra tekur undir þau sjónarmið," segir í tilkynningunni.

„Slíkur málflutningur er dapurlegur vitnisburður um ásetning þessara aðila um endurreisn íslensks atvinnulífs. Öll samtök atvinnulífsins á Íslandi - líka Samtök iðnaðarins - hafa lagt áherslu á frjálsa samkeppni þrátt fyrir ofurvald ríkisins um þessar mundir. Þess vegna eru ummæli framkvæmdastjóra SI óskiljanleg og afar sorgleg. Aalborg Portland fer hvorki fram á ívilnanir né styrki heldur aðeins að hafðar séu í heiðri heiðarlegar leikreglur á markaði. Það mun gagnast íslenskri þjóð best," segir í tilkynningunni frá framkvæmdastjóranum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×